154. löggjafarþing — 76. fundur,  21. feb. 2024.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.

130. mál
[18:20]
Horfa

Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir annað andsvar. Ég tek undir margt sem þar kemur fram hjá hv. þingmanni, ég held að það séu mikil tækifæri í þessu til að öðlast alltaf meiri og meiri þekkingu á þessu efni og ég held að það myndi hreinlega fylgja þessari þjónustu- og þekkingarmiðstöð eins og nafnið gefur til kynna. Við erum alltaf að reyna að öðlast meiri og betri þekkingu á þessu viðfangsefni. Það sem hefur kannski komið meira í ljós á síðustu árum er að það eru ekki bara börn sem eru að greinast með einhverfu, það kemur líka fram á fullorðinsárum í kjölfar kulnunar, eins og ég hef nefnt áður, og jafnvel geðræns vanda. Ég held að það séu einmitt mikil tækifæri í þessu að styðja við þetta fólk og koma því aftur í hina daglegu rútínu, koma því í vinnu og gera það aftur að virkum þátttakendum í þjóðfélaginu. Ég hef trú á því að stofnun sem þessi þar sem allt er komið á einn stað geti liðkað fyrir því og dregið úr þessari félagslegu einangrun sem þessu fylgir. Ég held því að það séu ótal kostir við þessa tillögu, að koma á fót þessari stofnun, og það á öllum sviðum, alveg sama hvort við erum að tala um rannsóknir eins og hv. þingmaður nefndi eða bara að taka utan um fólk og styðja við það við greiningu, hjálpa því og ýta því aftur út í hið daglega líf sem við öll þekkjum að mun á endanum gagnast samfélaginu öllu.