154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

tímabundið eftirlit á innri landamærum.

[11:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég er meira en reiðubúinn að ræða um verndarkerfið og útlendingalöggjöfina á Íslandi þó að í sjálfu sér heyri málefnasviðið undir dómsmálaráðherra. En það er rétt sem hv. þingmaður segir að við höfum tekið við gríðarlegum fjölda hælisleitenda á undanförnum árum, langt umfram það sem spáð var og kostnaðurinn er kominn úr böndunum. Þetta hef ég margítrekað sagt, ég hygg reyndar að 35 milljarða talan sem hv. þingmaður nefndi hafi átt við um síðastliðin tvö ár, 15 og 20 milljarðar, en það breytir því ekki að 20 milljarða kostnaður á ári er algerlega óréttlætanlegur. Ég segi bara svona aðeins til upprifjunar að þetta var kostnaðarliður sem var innan við 500 milljónir þegar ég byrjaði í fjármálaráðuneytinu 2013. Hann hefur sem sagt fjörutíufaldast, þessi útgjaldaliður. Þannig að það er enginn hér, trúi ég, í þinginu sem telur að þessum fjármunum sé vel varið í verndarkerfið. Það eru margar ástæður fyrir því að þetta hefur þróast svona. Í fyrsta lagi hefur fólki á flótta fjölgað gríðarlega. Við höfum fundið fyrir mörgum umsóknum frá Venesúela. Það er sú þjóð samkvæmt tölum sem ég sá fyrir ekki löngu síðan sem á flesta einstaklinga á flótta miðað við höfðatölu og það er þess vegna ekki að undra að einhverjar umsóknir berist hingað. En það eru séríslensk ákvæði sem eru að valda okkur alveg sérstökum vandræðum. Þar er ég að nefna réttinn til fjölskyldusameiningar strax og vernd er fengin og þar er ég að nefna réttinn til að fá mál tekið fyrir þrátt fyrir að viðkomandi sé með vernd í öðru landi, svo dæmi séu tekin. Þetta eru atriði sem eru tekin fyrir í nýju frumvarpi dómsmálaráðherra. Ég er sömuleiðis ánægður að sjá að þar er ráðherrann að leggja til að dvalarleyfi sé veitt til styttri tíma en átt hefur við þegar aukin vernd er veitt, og margt fleira mætti hér telja til.

Ég ætla í seinna svari mínu að koma nánar inn á (Forseti hringir.) úkraínska flóttamenn sem eru annars eðlis vegna þess að þeir fá samstundis án efnismeðferðar rétt til að vera hér og geta þess vegna byrjað að vinna.