154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[16:15]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Ég vil þakka aftur hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar reyndar aðeins að ræða í upphafi það sem hann sagði um að það mætti ekki hækka skatta, það væri eitt af kosningaloforðum nokkurra flokka í ríkisstjórninni. Ef það þarf að borga er enginn munur fyrir heimilin hvort peningarnir fari í skattgreiðslur eða vaxtagreiðslur, þeir eru hvort sem er farnir úr vasa heimilanna. Þess vegna hef ég aldrei skilið að það sé með nokkru móti hægt að réttlæta 200.000–300.000 kr. aukningu á greiðslubyrði í hverjum einasta mánuði á meðan við þurfum að togast á um hvern einasta skatt. Og nú er ég ekki að mæla með skattahækkunum, ég er bara að segja: Þarna fer ekki saman hljóð og mynd, sem reyndar er eiginlega orðið bannað að segja. Þetta er farið úr vasa heimilanna hvort eð er en ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í það.

Hvað varðar fyrstu kaupendur, nei, það náðist ekki í gegn að gera eitthvað sérstakt fyrir þá. Það virðist bara almennt vera litið þannig á að ef þú lendir í einhverjum hamförum þá berirðu alltaf einhvern skaða og það var gripinn þarna stærsti hluti fólksins. Við gátum sem betur fer komið til móts við búseturéttinn og ég er mjög ánægð með það. Hvað varðar þennan hóp, hvað þyrfti að gera sérstaklega fyrir hann? Það þyrfti væntanlega að bæta honum útborgunina með einhverjum hætti vegna þess að væntanlega er það bara útborgunin og svo fá þau brunabótamatið og þá er í rauninni útborgunin farin því að brunabótamatið fer væntanlega mest í að borga upp skuldirnar. Þannig að já, það þyrfti að bæta þeim þetta upp með einhverjum hætti en við náum því miður ekki utan um það í þessu frumvarpi.