154. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2024.

kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

704. mál
[16:17]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík og ég vil byrja á því að þakka hv. efnahags- og viðskiptanefnd fyrir samstarfið í þessu máli sem hefur verið gott. Þó að ég hafi á endanum komist að þeirri niðurstöðu að ég myndi ekki vilja vera á nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar þá tel ég samt að vinnan innan nefndarinnar hafi verið til mikillar fyrirmyndar í mikilli tímaþröng. Mér fannst vel tekið við öllum beiðnum um gesti og annað slíkt og ég væri til í að sjá þessi vinnubrögð ástunduð í fleiri málum, svo ég geti sagt það líka.

Þegar kemur að frumvarpinu sjálfu þá er hér um ótrúlega mikilvægt réttlætis- og hagsmunamál að ræða fyrir Grindvíkinga og ég styð það heils hugar að ríkið fari í það að kaupa upp eignir af þeim sem það vilja, kaupa upp íbúðarhúsnæði af þeim íbúum Grindavíkur sem það vilja og að þar með sé tekin yfir þessi áhætta og ákveðinni óvissu eytt. En eftir stendur að það eru nokkur atriði sem mér finnst ekki svarað eða ekki brugðist rétt við. Ég áttaði mig á að það myndi ekki nást samstaða um þær athugasemdir mínar innan nefndarinnar og mér fannst ekki fullnægjandi að vera með fyrirvara varðandi þessi atriði heldur ákvað ég frekar að vera ekki með á nefndarálitinu, þó að ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ég styðji meginatriði þessa frumvarps.

Í fyrsta lagi finnst mér mikilvægt að koma inn á það afmarkaða gildissvið sem gildir um þetta frumvarp, að þetta taki bara á mjög afmörkuðum hluta af þeim fasteignum sem eru í Grindavík og skýringar sem gefnar hafa verið á því hvers vegna það er og skýringarnar sem gefnar hafa verið á því hvers sé að vænta varðandi allar hinar eignirnar. Þá ber að segja að þetta frumvarp nær einungis utan um heimili fólks með örfáum undantekningum, þ.e. fasteignir þar sem fólk á lögheimili, og svo eru mjög takmarkaðar undanþágur. Þarna er talað um dánarbú og þarna er talað um að viðkomandi hafi ekki átt lögheimili í fasteign vegna ákveðinna aðstæðna sem eru frekar þröngar miðað við mismunandi aðstæður sem geta verið uppi gagnvart fasteign.

Gott og vel, ég skil markmiðið með að fókusa núna bara á heimili fólks og það að tryggja að fólk geti komið sér upp þaki yfir höfuðið og í raun og veru er verið að búta niður stóran, stóran pakka sem þarf að fara í til að afgreiða allt það og allar þær afleiðingar sem þessar jarðhræringar í kringum Grindavík og í Grindavík hafa haft í för með sér. En mér finnst miðað við það ekki vera nógu skýrt að það standi til að gera eitthvað með hinar eignirnar. Mér finnst ekki hafa komið skýr svör um að það sé í burðarliðnum, að það sé verið að vinna það. Mér finnst hafa komið svona: Já, kannski, mögulega ef við erum í aðstöðu til þess. Ég á svolítið erfitt með að fólk sé skilið eftir algerlega í óvissu um hvort það verði eitthvað meira gert en þetta þegar kemur að öllum hinum fasteignunum. Ég ætti auðveldara með að vera með á þessu nefndaráliti ef það lægi t.d. ljóst fyrir að það væri vinna í gangi til að ná utan um allt hitt sem á eftir að afgreiða, en það bara liggur ekki ljóst fyrir og mér hafa ekki fundist koma skýr svör í þeim efnum fram að þessu. Þannig að þetta er eitt atriði, vegna þess að ég tel ótrúlega mikilvægt að ná utan um atvinnuhúsnæði í bænum, að ná utan um fasteignir sem eru kannski fasteign tvö hjá einstaklingum eða fasteign þrjú jafnvel. Ég er kannski aðallega að hugsa um t.d. fólk sem hefur keypt eign fyrir börnin sín til að búa í og það eru heimili þeirra, barnanna, og ekkert liggur fyrir um hvort þau fái nýtt heimili. Miðað við það að foreldrarnir eru enn þá fastir með lánið í Grindavík og eignina í Grindavík er hún væntanlega töluvert verðminni en hún var áður en allt þetta fór af stað og fólk í algerri óvissu með hvort það sé einhvern veginn hægt að fara í það aftur að koma fasteign undir fjölskylduna, undir börnin. Eins og við vitum og þekkjum er fasteignamarkaðurinn hér ansi grimmur og þess eðlis að það er mjög erfitt fyrir sérstaklega ungt fólk að komast inn á fasteignamarkaðinn ef það á ekki fjölskyldu, foreldra sem geta stutt það við að koma sér inn á fasteignamarkaðinn.

Þetta er auðvitað óbærileg staða, virðulegi forseti, vegna þess að þetta gefur til kynna að það sé komin upp sú staða í okkar samfélagi að það sé töluverð stéttaskipting þegar kemur að lífsgæðum, að þú hafir ekki öruggt húsaskjól og sért jafnvel föst á mjög hvikulum og oft glötuðum leigumarkaði vegna uppruna þíns, vegna þess hverjir foreldrar þínir eru. Ég tel að við séum nú flest í þessum sal sammála um að við viljum ekki að samfélagið okkar sé þannig að tækifæri þín í lífinu og geta þín til þess að koma þér upp framtíðarheimili eigi allt sitt undir því að þú eigi foreldra sem geta hjálpað þér með það. Það er ekki sanngjarnt samfélag.

Þetta atriði situr svolítið í mér og líka varðandi atvinnuhúsnæði. Þá er ég sér í lagi að hugsa um fjölskyldufyrirtæki og smærri fyrirtæki sem eru kannski með svo gott sem allt sitt undir í þessu atvinnuhúsnæði og eru enn þá í fullkominni óvissu um hvað verður um það og hafa ekki fengið, að mér vitandi, nein svör um hvort yfir höfuð stendur til að bæta þeim það tjón. Ég átta mig á því að það er enn þá óvissa um hvort það sé hægt að nýta þetta húsnæði eða ekki en það á alls ekki við í öllum tilfellum, eins og hefur verið komið inn á í þessari umræðu. Með suma atvinnustarfsemi í Grindavík liggur alveg fyrir að það er ekkert hægt að sinna henni neitt í nálægri framtíð. Ef fólkið er ekki í Grindavík eru ekki forsendur fyrir atvinnurekstri, sumum hverjum a.m.k., í Grindavík. Ég myndi t.d. vilja sjá einhvers konar nýsköpunarstyrki eða styrki til atvinnulífsins til að koma upp starfsstöð annars staðar og til þess jafnvel að fara í annars konar rekstur ef það er það sem viðkomandi einstaklingar vilja eða finnst skynsamlegra eftir atvikum.

Þetta eru allt atriði sem á eftir að svara og mér finnst verra að við séum að ganga svona frá borði með þessi mál, sem er vissulega frábært að við séum að afgreiða og sé rík sátt um að afgreiða og að þetta hafi gengið allt mjög vel, en að við séum samt að ganga inn í eitthvað sem almenningi finnst örugglega að vissu leyti vera frí, sem er rétt því að þingið verður náttúrlega ekki að störfum í kjördæmaviku sem felur í sér að þingmenn fara í kjördæmin að tala við kjósendur, og við vitum svo ekkert hvernig við höldum áfram með þetta. Ég átta mig á því að hér eru margir stjórnarliðar jafnt sem stjórnarandstöðuþingmenn búnir að koma upp og segja að við ætlum að vera á vaktinni og fylgjast áfram með og bregðast við o.s.frv. ef þörf krefur, en mér finnst í þessu tilviki þörfin vera augljós og ekki búið að gera nóg til að mæta þeirri þörf. Ég set kannski punktinn við þessar hugleiðingar mínar hér vegna þess að ég þarf líka að einbeita mér að öðrum efnisatriðum þessa frumvarps og þetta var um eitthvað sem er ekki í þessu frumvarpi en mér finnst að ætti að vera þar. En allt í lagi.

Annað sem ég geri athugasemdir við varðandi þetta frumvarp er fjármögnunin á því. Ég hef komið inn á það í nokkrum andsvörum og umræðum hér og meira að segja líka í óundirbúnum fyrirspurnum við hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag að mér finnst flókið, og ég er ekki alls kostar sátt með þá leið sem ríkisstjórnin velur til að fjármagna þessar aðgerðir. Það sem ég vil taka fram alveg í upphafi er að ég er fullkomlega sammála því að það eigi að fjármagna þessar aðgerðir og mér finnst algjörlega sjálfsagt að ríkissjóður fjármagni þessar aðgerðir, svo við höfum það algerlega á hreinu. Það er ekki að þannig að ég, svo við tökum frekar venjulega til máls, tími ekki þessum pening. Það er engan veginn þannig heldur miklu frekar það að ég set spurningarmerki við það hvaðan peningarnir eru teknir.

Í fyrsta lagi finnst mér athugunarvert að við séum að veita ráðherra heimild til að taka allt að 15 milljarða út úr náttúruhamfaratryggingarsjóði, eitthvað sem ég veit að sjóðurinn er heldur ekki alls kostar sáttur með. Það sást skýrt á umsögn sjóðsins sem ég er nú ekki með hérna fyrir framan mig þannig að ég get ekki vitnað beint í hana, en svo maður endursegi þá kom þar fram að með þessari ráðstöfun væri í raun verið að breyta grundvallarfyrirkomulagi þessa sjóðs sem á að bæta beint tjón af völdum ákveðinna náttúruhamfara, eins og eldgoss, snjóflóða og annarra hluta. Með því að taka peninga út úr sjóðnum væri því eðli málsins samkvæmt verið að veikja getu sjóðsins eða burðarþol hans til að takast á við framtíðaráföll. Þá var sömuleiðis tilgreint að með því að veikja eigið fé sjóðsins væri líklega verið að gera það að verkum að það yrði dýrara fyrir sjóðinn að semja við alþjóðlega endurseljendur eða sem sagt alþjóðlega tryggingarsjóði sem náttúruhamfaratryggingarsjóður semur við til að baktryggja sig og gerir það á hverju ári. Ég er ekki viss um að neinum sé greiði gerður með því að hækka kostnaðinn sem náttúruhamfaratryggingarsjóður verður fyrir af því að reka starfsemi sína með því að hækka iðgjöldin sem náttúruhamfaratryggingarsjóður þarf að borga til annarra tryggingafélaga, sem eru alþjóðleg tryggingafyrirtæki, og með því að veikja eigið fé sjóðsins.

Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að eigið fé sjóðsins sé 60 milljarðar og nú þegar er sjóðurinn búinn að reikna sér til að það séu a.m.k. 10 milljarðar og mögulega og líklega fleiri milljarðar sem eigi eftir að bæta í kjölfar atburðanna sem heyra beint undir það lögbundna hlutverk sjóðsins að bæta tjón sem honum ber að bæta. Ef við tökum 15 milljarða til viðbótar af eigin fé sjóðsins þá sitja eftir 30 milljarðar og það gefur augaleið að ef síðan verður eitthvert annað óvænt áfall, og kannski ekki einu sinni svo óvænt miðað við aðstæður, þá gæti það veikt enn frekar stöðu sjóðsins. Það eina sem við höfum í hendi með að það verði eitthvað gert til að bæta sjóðnum þetta eru leiðbeiningar í nefndaráliti, sem er góðra gjalda vert og mjög gott að það komst inn í nefndarálit að ráðherra séu gefin skilaboð frá nefndinni um að fara í að vinna að framtíðarfjármögnun sjóðsins, sömuleiðis að nefndin ætli sér að taka fyrir, bara eins fljótt og verða má, hugsanlegar lagabreytingar sem styrkja fjármögnunargetu sjóðsins og eigið fé, t.d. með því að fella niður skyldu félagsins til að borga fjármagnstekjuskatt sem er auðvitað mjög sérstakt að hann þurfi að gera miðað við formatið á þessum sjóði. Það er gott og vel, en ég hef áður séð fyrirmæli og áætlanir í nefndarálitum verða að nákvæmlega engu. Ef það er ekki skrifað skýrt í lögin t.d. að náttúruhamfaratryggingarsjóður fái endurgjaldið af nýtingu þessara fasteigna eða umsýslunni með þeim o.s.frv. til baka þegar að því kemur og sömuleiðis varðandi bæturnar, að náttúruhamfaratryggingarsjóður þurfi ekki að leggja út fyrir bótum þegar það er búið að taka pening á móti úr sjóðnum sjálfum án þess að það sé gert upp, þá höfum við enga fullvissu fyrir því að það verði staðið við það. Þótt það sé auðvitað góðra gjalda vert að það séu þarna fyrirheit um það er ekkert sem tryggir þetta annað en orð á blaði. Þetta eru ekki lögin í landinu og það vekur líka áhyggjur.

Að öðru leyti vil ég ekki hætta þessari tölu minni án þess að taka líka jákvæðar hliðar á frumvarpinu fyrir og jákvæðar breytingar sem hafa orðið á því. Mér finnst mjög mikilvægt að við erum að lengja frestinn sem fólk hefur til að ákveða hvort það vilji selja fasteignina sína til áramóta í ljósi þeirrar óvissu sem er uppi og í ljósi þess að það eru ekki enn komin svör t.d. varðandi það hvað verður gert með atvinnuhúsnæði og annað. Líka bara að gefa fólki ráðrúm og tíma til að jafna sig eftir öll þessi áföll sem hafa dunið yfir. Sömuleiðis held ég að það sé mjög mikilvægt að það hafi náðst samstaða um það innan nefndarinnar að framlengja forgangsréttinn eða þennan forkaupsrétt og aðgang að því að geta mögulega keypt eignina aftur eða jafnvel leigt hana úr tveimur árum í þrjú. Mér finnst það mjög mikilvægt og að við höfum að sama skapi ákveðið að halda endurskoðunarákvæðinu í tveimur árum þannig að það sé einhver fyrirvari á því hvort þetta framlengist eða hvernig það verður. Mér finnst það mjög góð breyting.

Það að búseturétthafar hafi verið teknir inn í þetta frumvarp er líka alveg frábært vegna þess að ríkisstjórnin skildi það einhvern veginn eftir í þessu frumvarpi, sagði að hún sæi alveg sjónarmið fyrir því að þetta ætti að eiga við um búseturétthafa en gerði ekkert í því, setti þetta bara inn í greinargerð. Það er því gott að þingið og nefndin hafi tekið það upp á sína arma. En ég er ekki alls kostar sátt við þá nálgun sem var valin og það er önnur ástæða fyrir því að ég er ekki með á nefndarálitinu. Þetta er frekar sérstakt kerfi, búseturétthafakerfið, og þarna er fólk kannski búið að bíða lengi eftir að komast inn í þetta kerfi og búið að leggja mikið á sig til að ávinna sér einhverja stöðu í því. Núna erum við að bjóðast til að kaupa fólk út, sem er vel, en þar með erum við líka eiginlega að henda því út úr þessu búseturétthafakerfi. Mér finnst það miður og hefði frekar viljað fara leið sem varðveitti stöðu þeirra innan þessa kerfis þannig að hægt hefði verið að koma til móts við Búseta eða Búmenn, sem eru þarna með nokkra tugi eigna, og hjálpa þeim að viðhalda sambandinu við fólkið sem bjó í þessum eignum. Ég hefði viljað sjá aðeins meiri vilja til að koma til móts við það sjónarmið af því að það er ákveðið val að fara inn í þetta kerfi. Það getur líka verið vegna þess að viðkomandi hefur ekki efni á því að leggja út fyrir útborgun eða vill bara af hugmyndafræðilegum ástæðum vera í þessu kerfi frekar en að eiga fasteign. Það geta verið margar mismunandi ástæður fyrir því og þarna erum við í raun að segja: Þú færð hérna þessa peninga en svo er ekkert vitað hvort þú komist aftur inn í Búseta. Vegna þess hvernig það er allt saman ákvarðað og farið út úr því þá þarftu, held ég, að fara bara aftast í röðina til að komast inn í kerfið aftur og svo er einhvers konar lotterí í kringum það. Það er svolítið flókið að afgreiða þetta svona og ég held að það hefði verið hægt að gera það í betra samræmi við að fólk geti haldið sig áfram inni í þessari hugmyndafræði.

Ég hefði viljað taka aðeins ítarlegri umræðu um nokkur önnur atriði í þessu frumvarpi en ég læt það liggja milli hluta, vegna þess að tíminn líður, virðulegur forseti, hvort ég komi aftur upp í aðra ræðu. Við sjáum bara til. En að öllu þessu sögðu þá lýsi ég því enn og aftur yfir að ég styð þetta frumvarp þrátt fyrir að ég geri athugasemdir við hvernig það er fjármagnað. Ég þakka bara fyrir að við höfum náð að gera þetta svona hratt og vel og þakka aftur fyrir gott samstarf í nefndinni sem var með miklum ágætum við mikinn hraða. Eins og ég segi eru nokkur atriði sem ég tel að hefði farið betur á að hafa öðruvísi og þar af leiðandi lýsti ég mig ekki sammála nefndaráliti meiri hlutans.