154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

samkeppniseftirlit á Íslandi og innleiðing skaðabótatilskipunar ESB.

[15:07]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. 62 milljarðar er sá kostnaður sem féll á fyrirtæki og fólkið í landinu vegna samráðs tveggja stórfyrirtækja á árunum 2008–2013, — 62 milljarðar kr. á núvirði. Þetta kemur fram í frummati Analytica fyrir Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR. Til að setja þennan kostnað í eitthvert samhengi sem fólk getur skilið er áætlaður kostnaður við uppkaup á íbúðum Grindvíkinga um 61 milljarður kr., lægri upphæð en kostnaður af samráðinu á árunum eftir hrun. Eimskip játaði sök og Samskip fékk hæstu sekt í Íslandssögunni. Þetta er sögulegt mál.

En hvað hefur ríkisstjórnin gert til að bregðast við þessu samsæri gegn þjóðinni og til að koma í veg fyrir að leikurinn verði endurtekin? Ekkert, ekki neitt. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa ekki beitt sér fyrir umræðu, ekki sýnt forystu og ekki tekið sér stöðu með almenningi og almennum fyrirtækjum í þessum málaflokki þrátt fyrir að sterkt samkeppniseftirlit hafi margsinnis sannað gildi sitt og komið í veg fyrir tugmilljarða tjón fyrir fólkið í landinu. Ríkisstjórnin hefur enga stefnu í þessu nema samdrátt í fjárveitingum til Samkeppniseftirlitsins. Framlögin hafa lækkað um 20% frá 2014 þegar umsvif í efnahagslífinu hafa aukist um 40%. Um leið sjáum við endurteknar tilraunir stjórnarmeirihlutans til þess að veikja samkeppnislöggjöf í landinu.

Forseti. Eitt það mikilvægasta sem þessi staða kallar á fyrir Ísland er innleiðing á skaðabótatilskipun ESB frá 2014 sem auðveldar einstaklingum og fyrirtækjum að sækja bætur vegna samkeppnislagabrota. Svo þarf að skýra lög og heimildir fyrir almannaheillasamtök til að efna til hópmálsókna og gera þær að raunverulegum kosti í svona málum.

Ég vil því spyrja: Er hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sammála þessu? Og ef svarið er já, hvers vegna hefur ríkisstjórn hennar ekki beitt sér fyrir því að t.d. skaðabótatilskipunin frá 2014 verði tekin upp í EES-samninginn og hér á Íslandi?