154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

samkeppniseftirlit á Íslandi og innleiðing skaðabótatilskipunar ESB.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Í raun er merkilegt hvað það hefur lítið verið rætt í þingsal því að mínu viti tel ég að þetta mál sýni að Samkeppniseftirlitið er svo sannarlega að vinna sína vinnu, að við erum með lög og reglur um samkeppni sem skipta máli. Þetta eru himinháar sektir sem þessi fyrirtæki fá. En ég ætla að taka undir með hv. þingmanni að það skiptir máli að við hugsum um framhaldið því að þetta snýst ekki bara um samkeppnisréttinn, sem er mikilvægur, þetta snýst líka um hvernig skipulagður er innflutningur í landið, hvernig við högum þeim málum. Þá er ég að vísa til þess að í gegnum þessi tvö fyrirtæki fer auðvitað nánast allur innflutningur á vöru inn í landið og það skiptir máli að við veltum því fyrir okkur hvernig við getum opnað fyrir nýliðun þegar kemur að innflutningi í landinu.

Hv. þingmaður nefnir hér sérstaklega skaðabótatilskipun, Evróputilskipun um skaðabótarétt vegna samkeppnismála sem ekki hefur enn verið tekin upp í EES-samninginn. Því hefur ekki hvílt á Íslandi sérstök þjóðréttarleg skuldbinding til að innleiða þá tilskipun. En samkvæmt upplýsingum frá menningar- og viðskiptaráðherra, sem fer með þessi mál, hefur verið unnið að því að innleiða þessa tilskipun í EES-samninginn af hálfu EES- og EFTA-ríkjanna og áfram stendur til að vinna þá vinnu. Ég ætla að taka undir með hv. þingmanni. Við erum lítið land og hér eru fá fyrirtæki. Það getur verið flókið að tryggja virka samkeppni nema að regluverkið sé skýrt. Ég tel að þessi niðurstaða sýni að við erum með samkeppniseftirlit sem virkar en ég tel að við eigum að sjálfsögðu að huga að því hvaða réttarbætur við getum ráðist í til þess að tryggja þá stöðu enn betur.