154. löggjafarþing — 79. fundur,  4. mars 2024.

útlendingar.

722. mál
[21:04]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég og hv. þingmaður höfum svo oft tekist á um útlendingamál, hvort sem það er í pontu, í nefnd eða í alls konar útvarps- og sjónvarpsþáttum, að ég er alveg búin að sjá það fyrir löngu síðan að við munum aldrei verða sammála um þetta. Það er líka bara allt í góðu lagi og um það snýst pólitíkin, að það eigi að varpa hér fram mismunandi sjónarmiðum. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn, og Píratar eru algerlega á öndverðum meiði þegar kemur að því hvers konar löggjöf við eigum að hafa hér um útlendinga og hvernig við eigum að byggja verndarkerfið upp. Ég hef viljað horfa til hinna Norðurlandanna og læra af reynslu þeirra en hv. þingmaður hefur hér ítrekað talið það að við séum að taka upp þeirra ósiði.

Mig langar, virðulegur forseti, bara að spyrja hv. þingmann: Hvernig vill hv. þingmaður hafa löggjöf utan um verndarkerfið? Er eitthvert eitt fyrirmyndarríki? Nú sjáum við að öll Evrópuríkin eru að breyta sinni löggjöf og meira að segja Þýskaland, sem hv. þingmaður hefur oft nefnt í þessu samhengi, er að herða löggjöfina. Hvað er það? Vill hv. þingmaður yfir höfuð hafa eitthvert regluverk í kringum þetta og hvernig ætti það regluverk þá að vera?