154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í gær lauk 1. umræðu um nýtt útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, og nú er það komið inn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd sem ég leiði og ég hyggst að sjálfsögðu vanda vel yfirferð yfir þetta góða mál en skila því jafnframt fljótt hingað aftur í þingsal. Í umræðunum í gær, sem ég held að hafi verið mjög góðar — það er auðvitað ljóst að við erum ekki alveg sammála, allir flokkar, og það er líka bara eðlilegt, en mér fannst engu að síður andrúmsloftið í þessari umræðu sem átti sér stað í gær vera allt öðruvísi en það var fyrir ári síðan. Mér finnst við meira tilbúin að takast á við það verkefni sem bíður okkar af mannúð og raunsæi. Í umræðunni um útlendingamál, þá er ég sérstaklega að vísa í umræðu um alþjóðlega vernd og lagaumhverfi þar að lútandi, hef ég oft kallað eftir því að við förum lengra í umræðunni og tökum hana á víðtækari hátt. Þess vegna fagna ég mjög aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki þar sem tekið er á málunum, bæði er varðar alþjóðlega vernd og skýrt regluverk þar utan um en ekki síður inngildingu og aðlögun og hvernig við tökum á móti erlendum ríkisborgurum.

Mig langar í því sambandi að minnast á skýrslu sem forsætisráðherra skilaði þinginu í lok síðasta árs, 29. nóvember held ég, sem var að minni beiðni og fleiri þingmanna sem setið hafa í allsherjar- og menntamálanefnd, sem var einmitt um árangur okkar í móttöku og aðlögun erlendra ríkisborgara. Það er alveg ljóst að verkefnið sem íslenskt samfélag glímir við er mikið vegna þess að við höfum breyst og við erum og við eigum að vera fjölmenningarsamfélag. En á sama tíma er auðvitað mikilvægt að íslenskar hefðir og gildi fái haldið sér. Þess vegna er það áskorun fyrir okkur sem samfélag að aðlagast svona hratt. Ég vænti þess að við getum öll verið sammála um mikilvægi þess að þeir sem hingað koma og vilja dvelja á Íslandi leggi líka áherslu á það að læra íslensku og taka þátt í okkar góða samfélagi.