154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[14:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyrði ekki betur en hæstv. forsætisráðherra hafi talað um einkavæðingu varðandi viðkvæm svið og mikilvæga innviði og ég veit ekki betur en að fjármálakerfið sé samansett af bönkum. En allt í lagi, þetta er ekki aðalatriði spurningar minnar. Það lýtur að landi. Ég get ekki séð annað en að búið sé að útvatna 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. þannig að hann missir algjörlega marks þar sem verið er að binda þetta við þjóðlendur. Það er ekki þannig. Það verður að ná yfir allt land, að sjálfsögðu. Það að það séu einhverjar samningaviðræður bak við tjöldin um að reyna að sætta einhver öfl í samfélaginu og inni á þingi um að þetta nái bara til þjóðlendna, það er náttúrlega út í hött. Þetta er bara sýndarmennska ef það á að vera þannig. Það er alveg klárt mál að ef við horfum á skilgreininguna á þjóðaröryggi þá eru það verndarhagsmunir sem varða friðhelgi yfirráðasvæðis. Það er landið sem við ráðum yfir og öll efnahagslögsagan að sjálfsögðu. Það er okkar yfirráðasvæði. Þess vegna er mikilvægt að vernda það. Og ef einhver heldur því fram að þetta sé að takmarka erlendar fjárfestingar þá er hann algjörlega að misskilja þetta frumvarp, eins og kemur fram í greinargerð, með leyfi forseta:

„Fjárfestingarýni er þannig ekki ætlað að takmarka erlendar fjárfestingar almennt heldur er markmiðið að ganga úr skugga um að einstakar erlendar fjárfestingar á afmörkuðum samfélagssviðum leiði ekki af sér öryggisógn.“

Ef einhver getur ekki lesið þetta sér til gagns þá er erfitt að lifa í þessum heimi og að lesa þetta frumvarp. Það er alveg klárt mál að binda innviði við þjóðlendur, þó svo að ríkið hafi reynt með klærnar hérna út um allar koppagrundir, og nú síðast í eyjum og skerjum, sem er fáránleg kröfugerð — að það er verið að binda þetta frumvarp sem lýtur að gæðum erlendra fjárfestinga, sem eykur traust, eins og hæstv. forsætisráðherra talaði um. Þetta mun auka traust og líklega auka erlendar fjárfestingar, af því að erlendir fjárfestingarsjóðir, stórir sjóðir eins og olíusjóðurinn, nenna ekki að komi til ríkja sem hafa regluverk sem ekki er treystandi. Það á ekki að hafa svona ákvæði eins og hér með þjóðlendurnar. Ég skil bara ekki að þetta sé vandamál. Ég held að við vildum öll auka erlendar fjárfestingar og það kæmu þá gæðafjárfestar inn í landið, ekki einhverjir rússneskir ólígarkar eða hvað þeir heita. Ég skora bara á hæstv. forsætisráðherra að endurskoða þetta ákvæði.