154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu.

726. mál
[14:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er stundum rosalega áhugavert að hlusta á pólitískar útskýringar eða faglegar útskýringar á því af hverju ákvæði eru svona hérna og öðruvísi annars staðar o.s.frv. Þetta er svona í Danmörku en ekki í Svíþjóð o.s.frv. Í sumum málum er talað um að samræma reglur og í öðrum málum eru þær ekki samræmdar. Þegar allt kemur til alls þá er einfaldlega ekkert rosalega mikið samræmt, lönd eru með hinar og þessar forsendur og pólitísk gildi í sínum lögum. Þó að við séum með sama markmið þá útfærum við mjög margt á mismunandi hátt.

Eitt af því sem við höfum innleitt tiltölulega nýlega er fjármálaregluverkið eins og það leggur sig, í kjölfar hrunsins, sem er einmitt líka útfært á mismunandi hátt í löndum. Það hefur gerst þannig hérna á Íslandi, sem er dálítið óheppilegt, að t.d. löggjöf um peningaþvætti og eftirlit með því og hryðjuverkastarfsemi — sem er áþekkt þessu, þetta eru ekkert óskyldar greinar sem er verið að bæta við varðandi tilkynningarskyldu og ýmislegt svoleiðis — framkvæmd þeirra laga varðandi peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka gekk nú ekki betur en svo að móðir mín getur ekki stofnað bankareikning án þess að það taki alla vega sólarhring í ýmiss konar eftirlit en faðir fyrrverandi fjármálaráðherra gat keypt hlut í banka. Það er einhvern veginn misvægi í því. Þarna eru innlendir aðilar að kaupa og hérna erum við með frumvarp um erlenda aðila. Ég á dálitlum erfiðleikum með þessar innleiðingar, missamræmdar, sem eru að fara hérna í gegn því að stofnanirnar sem eiga að fylgjast með þessu ná einhvern veginn ekki að sinna sinni vinnu. (Forseti hringir.) Hvar sjáum við í rauninni kostnaðaráætlunina á einhvern raunhæfan hátt þegar kemur að því (Forseti hringir.) að fylgja því eftir að þetta sé að virka?