154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:42]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Teiti Birni Einarssyni fyrir áhugaverða ræðu og sérstaklega áhugaverðar breytingartillögur sem hann fjallaði hér um og mælti fyrir. Hann fór ofan í löggjöfina varðandi eyjar og sker í þjóðlendulögum og það er vert að minna á að skv. 10. gr. a er heimilt að skora á þá sem kalla til eignarréttinda að lýsa réttindum sínum fyrir nefndinni innan tiltekins frests, þ.e. heimild til að snúa því við, að eigendur eyja og skerja geri grein fyrir eignum sínum. Þegar ég var með mál fyrir vestan þá var það þannig að ég sendi tölvupóst og sagði að þetta væri brot á meðalhófsreglu og líka friðhelgi eignarréttarins þar sem jarðeigendur eiga að fá að eiga eignir sínar í friði án þess að þurfa að gera stjórnvöldum grein fyrir þeim.

Hv. þingmaður las upp úr greinargerð sem var mjög áhugaverð lesning. Eins og ég sé þetta byrjaði þjóðlendumálið upphaflega út af Landmannaafréttardómnum síðari, sem er á miðhálendinu upp af Suðurlandi. Þar byrjuðu þjóðlendumálin. Svo erum við núna með frumvarp um að ríkið sé jafnframt eigandi almenninga í stöðuvötnum og þar er vitnað í Mývatnsdómsmálið frá 1978. Í þeirri umræðu kom fram að ríkið gæti ráðið meðferð og nýtingu þeirra. Nú erum við með þessa tvo dóma hérna en veit hv. þingmaður um einhverja dóma sem fjalla um almenninga eða eignarrétt ríkisins eða heimildir ríkisins varðandi meðferð og nýtingu eyja og skerja? Við erum komnir frá miðhálendinu, fórum til Vestfjarða, Snæfellsness, Tröllaskaga og svo erum við komnir í eyjar og sker (Forseti hringir.) og svo almenninga í vötnum. Er einhver dómur sem hann veit um sem fjallar um eyjar og sker, (Forseti hringir.) hæstaréttardómur sem réttlætir þessa kröfugerð?