154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

737. mál
[16:51]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Þetta eru áhugaverðar umræður sem hér hafa átt sér stað og lúta að löggjöf sem ég hef skrifað um í Bændablaðið og kallaði þar ein mestu ólög sem Íslendingar hefðu samþykkt og hefðu dunið yfir Ísland. Hér er hins vegar verið að fjalla um starfslok óbyggðanefndar og lokin á þessum málaferlum sem hafa átt sér stað út um allt land, á 12 svæðum samtals. Núna er ríkið búið að gera kröfur í eyjar og sker og landeigendur eyja og skerja þurfa að fara að verjast. Það sem er hér undir, sem er gríðarlega áhugavert, snýst um hvernig landið var raunverulega numið. Frumvarpið sem var lagt fram á 122. löggjafarþingi 1997–1998, sem varð að lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, var upphaf þessara málaferla. Í frumvarpinu er t.d. vitnað í Høyfjellskommisjonen, norska fyrirmynd, og það var líka vitnað í aðra nefnd sem var norðar í Noregi. Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra að þessi mál eiga uppruna sinn í Landmannaafréttardómi hinum síðari þar sem segir að ríkið geti í skjóli valdheimilda sinna ráðið meðferð og nýtingu þeirra verðmæta sem eru á eignarlausu landi. Hvort ríkið óttaðist nýtt landnám á eignarlausu landi skal ósagt látið. Landnámsöld lauk 930 þannig að það fer enginn í landnám núna en kannski hefur ríkið verið að óttast það.

En hver er munurinn á norsku fyrirmyndinni og Íslandi? Í Noregi, og það er elsta konungsdæmi Evrópu, var það þannig að kóngurinn afhenti fylgismönnum sínum land. Hertogar og aðrir lénsmenn fengu landið afhent frá konungi — þetta var úti um alla Evrópu — af því að þeir studdu hann í stríði, baráttu og guð má vita hvað. Ísland, sem er algerlega einstakt í sinni röð, var numið af landnámsmönnunum og konum þannig að menn stikuðu sitt land. Um það fjallar Landnámabók. Ingólfur Arnarson nam landið að Ölfusi á Suðurlandi og upp í Brynjudal. Hann nam allt suðvesturhorn landsins. En viti menn, íslenska ríkið er búið að fá þjóðlendur á þessu svæði. Þeir komust að því að það var enginn sem átti hluta af landnámi Ingólfs. Hvernig þeir fóru að því, það má guð vita.

Það sem er hér undir er ekki hægt að skilja öðruvísi en að það hafi verið fullkomið eignarnám; víkingarnir eignuðust landið og svo voru almenningar. Þetta var tvenns konar land. Þeir námu landið og svo voru almenningar. En svo fer ríkið af stað og fyrstu landamerkjalögin koma árið 1882. Þá fengu bændur fimm ár til að skrifa landamerkjalýsingar sínar, landamerkjaskrár, og það var síðan lengt í átta ár frekar en sjö ef ég man rétt. Þetta voru ónákvæm plögg að mörgu leyti. Á Vestfjörðum var það klárlega þannig að bændurnir gerðu landamerkjalýsingar milli fjalls og fjöru. Af hverju? Þeir treystu á Jónsbók, bók sem er frá 1282 og var helsta réttarheimild og lögbók Íslendinga um árhundruð. Það er fjallað um netlög í Jónsbók og það er líka fjallað um landamerki til fjalla í Jónsbók. Svoleiðis er nú það. „… merki þar er fjöll þau eru, er vatnföll deilast,“ stendur í landbrigðabálki Jónsbókar. Það er grundvallarregla í íslenskum eignarrétti á landi. Landamerkjalögin árið 1882, það tók 38 ár að fá þau samþykkt. Þeir voru að berjast við það ár eftir ár að leggja þetta fram. En þjóðlendulögin voru gerð að lögum í annarri tilraun a.m.k., það var ekki oftar, ef ekki í fyrstu tilraun.

Það eru alveg hreinar línur með það að landið var numið sem fullkomið eignarland og svo voru almenningar. Og það var réttaróvissa líka á þessum tíma af því að það var búin til regla í Jónsbók sem segir að almenningar skuli vera þar sem þeir að fornu og nýju hafa verið. Þannig átti að leysa vandamálið sem Hæstiréttur benti á í Landmannaafréttardómi hinum síðari, að finna hvar almenningar væru, fara í rannsókn á landinu; hvar voru almenningar að fornu og nýju? Ekki að fara með kröfugerð á hendur öllum landeigendum og bændum í landinu til að staðfesta það hjá óbyggðanefnd hver ætti landið.

Svo er líka það að þegar menn kunna ekki að lesa landamerkjabréfin eða lesa þau hreinlega ekki — eins og er klárt mál að lögmenn ríkisins gerðu ekki á Vestfjörðum. Þeir bara drógu fjallsbrúnarlínuna og gerðu kröfu og málið búið. Meira að segja sumir upphafspunktarnir voru í vitlausum fjöllum. Í málinu sem ég var með var frægur strengur sem var í Tóarfjalli, gömul hreppamörk milli Auðkúluhrepps og Þingeyrarhrepps til forna, hann var í vitlausu fjalli, settur á í Bæjarfjalli, ekki Tóarfjalli, og menn höfðu aldrei komið á svæðið, aldrei nokkurn tímann. Það sem hefur komið fram varðandi það hvernig við komum fram við landeigendur í þessu landi í þessum málum er algjört hneyksli. Því var m.a. lýst af hv. þm. Birgi Þórarinssyni og ég er búinn að heyra sjálfur margar sögur um það hvað fólk er gjörsamlega orðlaust yfir því þegar ríkið er að krefjast þess að það eigi hluta af landi þess.

En hvað um það, ég tel að stuðst hafi verið við vitlausa aðferðafræði og ég hef fært rök fyrir því að það hefði átt að finna hvar almenningar voru. Það var náttúrlega það sem Íslendingar á miðöldum töldu vandamálið vera; hvar ætti að finna almenninga að fornu og nýju. En nei, við förum og skoðum skjöl sem voru búin til upp úr 1882 og finnum að þá lýstu t.d. bændur á Vestfjörðum bara landi milli fjalls og fjöru af því að þeir treystu á Jónsbók. Ég get tekið dæmi um það. Það er jörðin Skógar í Mosdal á Langanesi í Arnarfirði. Þar er bréf frá 1894, minnir mig, og þar segir bara fjallsbrún. Það er til landamerkjabréf af nákvæmlega sömu jörð 1922, eftir merk landamerkjalög frá 1919. Þar segir frá Skálahlíðarfjalli og „sem vötnum hallar til Kirkjubólslands.“ Þá eru menn hættir að hafa Jónsbók í huga og setja það sem stendur í Jónsbók í landamerkjabréfið og þannig var vatnshallareglan komin þarna inn. Áður treystum við á að hún væri í Jónsbók.

Það skal því enginn halda því fram að þessi gríðarlega framsýna löggjöf sem allir halda fram, eða hæstv. forsætisráðherra virtist halda fram að væri svo merkileg — í guðs bænum farið ekki að gera meira úr þessu en efni standa til vegna þess að sagnfræðingar framtíðarinnar munu örugglega rannsaka þetta og hrista hausinn yfir því hvernig var komið fram við landeigendur í þessu landi í þessum málaferlum öllum saman sem áttu raunverulega að vera rannsókn en voru gerð að rannsóknarrétti með mál á hendur nánast öllum landeigendum í landinu. Og inn á milli eru svæði sem eru ekki þjóðlendur en búið að úrskurða sem slíkar, m.a. í landnámi Ingólfs og ég get tekið dæmi af Tröllaskaga, Dalabyggð og fleiri stöðum þar sem eru þjóðlendur sem engan veginn geta verið þjóðlendur eða almenningar. Það var raunverulega skipt um nafn, úr almenningi í þjóðlendur. Ég held að við hefðum átt að halda í gamla nafnið almenningar til að hafa sögulega tilvísun og þá m.a. til Jónsbókar.

Það er erfitt að svekkja sig á sögunni en núna er hins vegar í gangi kröfugerð fjármálaráðherra á eyjar og sker og þar var heimilt, eins og kom fram í andsvörum áðan, að krefjast þess að landeigendur gerðu grein fyrir eignarrétti sínum á landi sínu. En þeir nýta þá heimild ekki, heldur fara aðra leið og gera kröfu bara á allar eyjar og sker þannig að landeigendur verða að verjast. Hitt væri náttúrlega brot á meðalhófinu, friðhelginni og svo hefðu landeigendur bara getað sagt: Nei, ég ætla ekki að gera neinar kröfur, ég ætla bara að eiga mína eign í friði. Það sýnir vinnubrögðin sem hafa átt sér stað í þessu máli sem byrjað var á á miðhálendinu og átti að leysa úr eignarrétti á miðhálendinu. Það fór algerlega úr böndunum. Þá sögu þarf að skrifa og hvernig stóð á því að það var farið síðan út um allt land og endað á eyjum og skerjum. Það var ekki upphaflega hugsunin, eða það eru alla vega upplýsingarnar sem ég hef. Það væri mjög fróðlegt að fá þá sögu skrifaða, hvernig þetta átti sér stað allt saman.

Ég tel núna, þrátt fyrir að það sé frumvarp hér um starfslok óbyggðanefndar, að þessum málum sé ekki endanlega lokið. Ég held að málum sé þannig háttað í landinu að það séu svæði sem er búið að úrskurða sem þjóðlendur sem geta ekki verið það. Þau voru aldrei almenningar, þetta var aldrei eignarlaust land. Ég get tekið dæmi úr Húnavatnssýslu, t.d. varðandi Víðistaðaheiði, minnir mig að fjallið heiti, en hún var úrskurðuð þjóðlenda. Þar voru deilur uppi um 1700 um eignarhald á fjallinu. Hvað hefði gerst ef þær deilur hefðu verið leystar með úrskurði og dómi um að annar aðilinn ætti Víðistaðafjall? — Ég held að það heiti örugglega það, þetta ákveðna fjall sem ég er að tala um. — Þá væri þetta að sjálfsögðu ekki þjóðlenda í dag, þetta væri fullkomið eignarland. Það er af því að það var einhver eyða þarna og það var ekki lesið í Jónsbók. Það var greinilega horft á þessar deilur þannig að þær væru bara óleystar og þá ætti enginn svæðið. Þeir voru að deila um landamörk þarna upp úr 1700 og þá kemur ríkið með krumlurnar og segir: Við eigum þetta, ekki landeigendurnir. En landeigendur hefðu kannski getað hafið deilur milli jarðanna aftur sem voru upp úr 1700. Mig minnir að Árni Magnússon hafi meira að segja verið þarna. Þetta var upp úr 1703. Ég tel að það að fara í óskýrleika í landamerkjabréfum, sem áttu sér upphaf í landamerkjalögum frá 1882, hafi bara einfaldlega ekki verið rétt aðferðafræði. Ég tel að það þurfi að leysa þetta seinna meir með einhverjum hætti.

Fyrst ég er að tala um landamerkjalög get ég ekki annað en sagt en að þetta sýnir virðinguna fyrir þessari löggjöf sem lýtur að landamerkjum. Við vorum með mjög merka löggjöf sem var samin og samþykkt á Alþingi Íslendinga 1919 og voru gildandi lög þangað til í fyrravor. Það var ákveðin málamiðlun vegna þess að lögin árið 1882, það átti að rífa þau öll upp 1917. Þau voru svo illa gerð þessi landamerkjalög að það trúði enginn á þetta og það átti bara að byrja algerlega upp á nýtt. Hins vegar kom Einar Arnórsson, sem var lagaprófessor, þingmaður og ráðherra, merkilegur prófessor, með málamiðlun — og það var ekki í fyrsta sinn, hann gerði það líka í vatnalögunum — og hann samdi landamerkjalögin 1919. Eins og ég sagði áðan byrja bændur og landeigendur þá að setja vatnshallaregluna inn í landamerkjalögin.

Hvernig var farið með þetta síðasta vor? Jú, lög um landamerki voru numin úr gildi og þeim var skutlað inn í lög um fasteignamat þannig að þar er kafli um landamerki. Þannig var nú það og það sýnir á hvaða tímum við lifum í dag. Á 19. öld var þetta lífsafkoma og undirstaða samfélagsins, varðandi samfélagsstöðu og annað. Þetta var grundvöllurinn að því að við vorum að verða sjálfstæð þjóð og það þurfti að hafa á hreinu hver ætti landið. En svona er þetta orðið, núna er eingöngu horft á þetta sem tæki til skattheimtu og svo að þurfa að „GPS“-a allt saman af því að enginn veit hvert örnefnið er. Ég get hins vegar fullyrt það að landeigendur í dag þekkja örnefnin sín og þeir þekkja landamerkin sín, skráð og óskráð. Þetta sýnir viðhorfið í dag til landeigenda og þeirrar málsmeðferðar sem hefur átt sér stað í þessum málaflokki.

Ég tel að það sé óþarfi að við segjum það í þessu frumvarpi, sem hér liggur fyrir, að ríkið sé eigandi almenninga í stöðuvötnum. Almenningar í stöðuvötnum hafa ekki verið neitt vandamál hingað til, frá landnámi. Það vita allir að ríkið getur í krafti valdheimilda sinna ráðið meðferð og nýtingu á þeim auðæfum sem eru í almenningum stöðuvatna, komi til þess. Ég held líka að þó að þetta heiti starfslok óbyggðanefndar muni hún enn þá að vera til og þó að nafni frumvarpsins verði breytt þannig að það heiti frumvarp til laga um þjóðlendur og kaflaheitið Málsmeðferð þjóðlendumála komi í staðinn fyrir kaflaheitið Óbyggðanefnd sem mun falla út.

Ég skora á og vona að hæstv. fjármálaráðherra endurskoði kröfugerðina í þeim málaferlum sem nú eru í gangi eða að lögmenn ríkisins muni endurskoða þá kröfugerð. Það verður fróðlegt að sjá þá breytingartillögu sem hv. þm. Teitur Björn Einarsson fjallaði um og á að leggja fyrir. Það breytir því ekki að búið er að fara með ófriði á hendur öllum landeigendum í landinu nánast. Þetta er bara síðasta svæðið. Sem lögfræðingur þá horfir maður á almenning, fólk sem hefur aldrei lent í deilum á ævi sinni (Forseti hringir.) og á sína jörð, að fyrsta deilan í þessu lífi skuli vera gagnvart ríkinu og gagnvart friðhelgi eignarréttar síns, (Forseti hringir.) það segir mikið um ríkisvaldið, svo ekki sé meira sagt.