154. löggjafarþing — 80. fundur,  5. mars 2024.

Orkustofnun og raforkulög.

29. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkustofnun og raforkulögum, um Raforkueftirlitið frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og nefndinni bárust þrjár umsagnir um málið, auk minnisblaðs frá umhverfis-, orku og loftslagsráðuneyti en skjölin eru aðgengileg á síðu málsins á vef Alþingis.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum og lögum um Orkustofnun sem lúta að því að styrkja og tryggja betur sjálfstæði raforkueftirlits, með innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB frá 13. júlí 2009 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 2003/54/EB.

Um umfjöllun nefndarinnar almennt. Frumvarpið var áður flutt á 153. löggjafarþingi og var málið afgreitt frá nefndinni með áliti meiri hluta ásamt breytingartillögu (þskj. 1993, 983. mál) en náði ekki fram að ganga. Þá bárust nefndinni fimm umsagnir vegna málsins auk tveggja minnisblaða frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Málið er nú endurflutt með breytingum, bæði hvað varðar efni þess og heiti. Þar hefur m.a. verið tekið mið af þeim breytingum sem meiri hlutinn lagði til í áliti sínu þegar málið var flutt á 153. löggjafarþingi. Að öðru leyti vísar meiri hlutinn til þess nefndarálits sem var lagt fram á 153. löggjafarþingi vegna 983. máls.

Meiri hluti nefndarinnar leggur fram breytingartillögu með þessu máli en að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins um frekari upplýsingar. Í efnismálsgrein b-liðar 4. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um að bæta við raforkulög ákvæði um starfshætti Raforkueftirlitsins, m.a. hvað varðar sjálfstæði og samráð. Í umsögn sinni um málið leggur Landsnet til að gerðar verði breytingar á ákvæðinu, m.a. með vísan til áherslu á jafnræði og gagnsæi um störf Raforkueftirlitsins. Í 4. mgr. 35. gr. tilskipunar 2009/72/EB segir í 1. málslið að aðildarríkin skuli ábyrgjast sjálfstæði eftirlitsyfirvaldsins og skuli tryggja að það beiti valdi sínu af óhlutdrægni og á gagnsæjan hátt. Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið Landsnets og leggur til breytingu þess efnis. Sambærileg breyting verði einnig gerð á 2. gr. frumvarpsins til samræmis en þar er vísun til starfsreglna Raforkueftirlitsins.

Enn fremur leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar sem eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpinu verði samþykkt með breytingu sem hér kemur fram í álitinu tæknilega orðuð.

Birgir Þórarinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa. Undir álitið rita Þórarinn Ingi Pétursson formaður, Ásmundur Friðriksson framsögumaður, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Friðrik Már Sigurðsson, Gísli Rafn Ólafsson, Óli Björn Kárason og Tómas A. Tómasson.