154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:44]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og eins og hann nefndi þá kom ræðan mér ekki á óvart. Ég virði skoðanir hv. þingmanns. Ég hef reyndar ekki séð hann endilega standa undir því að það sé honum sérstaklega þungbært að vera á móti stjórnarfrumvörpum því að ég hef séð hann greiða atkvæði gegn þó nokkrum þeirra eða lýsa andstöðu sinni við mörg mál sem hingað eru á leiðinni, þannig að ég ætla nú að efast um það. En þingmaðurinn má að sjálfsögðu hafa þær skoðanir sem hann vill og finna þessu frumvarpi allt til foráttu, alveg sama þó að fjöldi annarra aðila — frú forseti, það er eitthvað að þessari klukku, ég er bara búinn að tala í örfáar sekúndur.

(Forseti (OH): Ráðherrann hefur orðið.)

Þessi sjónarmið hafa verið vegin og þau hafa verið fundin léttvæg í þessum starfshópi sem að hafa komið allir aðilar vinnumarkaðarins, svo dæmi séu tekin. En að sjálfsögðu virði ég skoðanir þingmannsins og þær fara inn í nefndina. Mig langar að benda á, af því að stór hluti ræðunnar snerist um skráningarskylduna, að hún er sambærileg og er í öllum löndum í kringum okkur og þykir ekki tiltökumál. Og það er sjúklega einfalt, eins og einhver sagði sem sendi mér það áðan, að skrá þetta inn á HMS, það er ekki mjög flókið og íþyngjandi (Gripið fram í.) og mun ekki leiða til þess að fjöldi fólks muni hætta á leigumarkaði enda hefur enginn haft slíkt samband við neinn af okkur sem vinnum í þessum geira. Hagstofa Íslands sendi bréf í samráðsgátt í ágústmánuði síðastliðið ár og benti á að það hefði verið til bóta frumvarpið um skráningarskyldu á atvinnuhúsnæði en sagði jafnframt að ef það yrði farið alla leið og skráðar allar forsendur allra leigusamninga þá myndi Hagstofan loksins fá, af því að skattagögn dygðu ekki, þau gögn dygðu ekki, nægilegar upplýsingar til þess að hægt væri að fara í breytingar á vísitölu húsnæðis, sem er búið að breyta og við getum þá haldið því fram að þær séu vafasamar í meira lagi akkúrat í augnablikinu. Hvað hefur hv. þingmaður um þetta að segja?