154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:46]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú er orðið skemmtilegt. Ég er nú þannig gerður, hæstv. ráðherra, að ég reyni af fremsta megni að vera samkvæmur sjálfum mér og þá er ég stundum upp við vegg þegar kemur að stjórnarfrumvörpum. Kannski á viðkomandi ráðherra eða ríkisstjórnin að líta í eigin barm og kenna ekki mér alltaf um þá erfiðleika sem ég stend frammi fyrir. En látum það liggja á milli hluta. Það er akkúrat það sem ég var að segja og hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki alveg áttað sig á, ég tala kannski of óskýrt: Löngun stjórnvalds, skiptir ekki máli hvort það er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða hæstv. innviðaráðherra eða Hagstofan, til að fá betri og fyllri upplýsingar réttlætir ekki það að skylda einstaklinga til að skrá einkaréttarlega samninga í opinberan gagnagrunn. Þetta er svona einfalt. Þetta er svona einfalt, hæstv. ráðherra. Ég tel að yfirvöld heilbrigðismála, landlæknir o.s.frv., hefðu mikinn áhuga á því að vita hvað við borðum á hverjum degi og það er hægt að færa fyrir því rök að fólk eigi að gera grein fyrir því hvaða matar það neytir, en okkur dettur það ekki í hug, okkur finnst það fáránlegt. En þetta er brautin sem hæstv. ráðherra er á. Hvar ætlar hann að stoppa? Núna eru þetta leigusamningar, næst eru það ráðningarsamningar og síðan koll af kolli þangað til að það er búið að kortleggja allt og allt skuli skráð hjá hinu opinbera, allir einkaréttarlegir samningar. Ég segi bara: Hingað og ekki lengra. Hér er varnarlínan sem ég hef sett og ég get ekki stutt málið. (Forseti hringir.) Þau rök duga ekki að það vanti betri upplýsingar, þau bara kaupi ég ekki.