154. löggjafarþing — 81. fundur,  6. mars 2024.

húsaleigulög.

754. mál
[16:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að gera athugasemd við það síðasta sem hæstv. ráðherra sagði. Hann hefur engar forsendur að koma með þær fullyrðingar sem hann setti hér fram, (Innvrh.: Jú.) að vegna þess að það væri skortur á upplýsingum þá myndi það leiða til þess að lán okkar hækki o.s.frv. Það er rangt. (Innvrh.: Nei.) Það eru engar forsendur fyrir þessum fullyrðingum, hæstv. ráðherra, mér er alveg sama hversu illa þér líður yfir þessu. Forsendurnar eru rangar og þú getur ekki komið með svona fullyrðingar hér fram. Ég get alveg skilið muninn á stjórnmálamanninum Óla Birni Kárasyni og Sigurði Inga Jóhannssyni þegar kemur að því hvaða viðhorf við höfum þegar kemur að hlutverki ríkisins. Hæstv. ráðherra er fylgjandi því að ríkið sé í hlutverki hins stóra bróður sem vaki og passi upp á einstaklingana. Ég er ekki þar og mun aldrei verða þar. Skráningarskylda einkaréttarlega samninga er með þeim hætti að það er verið að ganga freklega inn á það sem ég lít á að séu stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga. Ég eins og allir aðrir hef heimild til þess og leyfi til að gera þá einkaréttarlegu samninga sem ég kýs að gera við annan aðila, frjálsan aðila, án þess að láta ríkið vita af því með einhverjum hætti og það sé skráningarskylt í einhverjum opinberum gagnagrunni, allt til þess að hæstv. ráðherra eða stjórnvöldum líði betur og telji sig hafa betri upplýsingar yfir það sem ég er að gera.

(Forseti (OH): Forseti minnir hv. þingmann á að beina orðum sínum til forseta.)