154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

endurskoðun afstöðu gagnvart frystingu greiðslna til UNRWA.

[10:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Við höldum áfram á svipuðum slóðum. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hefur tekist að greiða fyrir för ríflega 70 manns frá Gaza til Íslands af íslenskum stjórnvöldum, fólks sem hafði fengið dvalarleyfi. Þau bætast þá við 20 einstaklinga sem íslenskir sjálfboðaliðar höfðu þegar bjargað af svæðinu. Það er alveg ástæða til að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta þótt vissulega séu margir hissa á seinagangi stjórnvalda í samanburði við íslenska almennra borgara. En gott og vel. Nú er bara að hvetja ráðherra til að klára að aðstoða þá sem stóðu út af og höfðu fengið dvalarleyfi. En þetta er auðvitað bara lítið brot af þeim sem eru innikróuð á Gaza-svæðinu og búa við einhverjar mestu manngerðu hörmungar í manna minnum og þurfa að vera þar áfram.

Skömmu eftir áramót tilkynnti ráðherra, án samráðs við ríkisstjórn og án samráðs við þing, að hann hefði ákveðið að frysta greiðslur til UNRWA vegna gruns um að 12 af 30.000 starfsmönnum samtakanna hefðu tekið þátt í hryllilegum hryðjuverkaárásum Hamas á Ísrael 7. október síðastliðinn. Það voru margir sem gagnrýndu slíka frystingu, m.a. António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sem lagði þunga áherslu á að ákvörðun ríkja yrði snúið við, enda væri með þessu verið að refsa mjög stórum hópi fólks sem byggi við alvarlega mannúðarkrísu vegna ásakana á hendur mjög fáum. Hæstv. ráðherra kom síðan fyrir utanríkismálanefnd í byrjun febrúar síðastliðinn og sagði að það kæmi vel til greina að endurskoða þessa afstöðu enda hefði þá rannsókn verið lokið af hálfu Sameinuðu þjóðanna sem ætti að taka u.þ.b. mánuð. Hann sagði líka að ef ekki færi að berast aftur aðstoð til samtakanna fyrir lok febrúar þá stefndi í hungursneyð. Nú er mars, nú ríkir hungursneyð og það hefur ekkert heyrst neitt nýtt frá ráðherra. Því spyr ég hæstv. ráðherra einfaldlega hvort við megum vænta þess að ráðherra tilkynni um nýja og endurskoðaða afstöðu og að framlag til UNRWA verði greitt á gjalddaga.