154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

endurskoðun afstöðu gagnvart frystingu greiðslna til UNRWA.

[10:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst skipta máli að halda því í umræðunni að svokölluð kjarnaframlög til þessarar stofnunar, UNRWA, voru aðeins lítill hluti heildarframlaga okkar á árinu 2023, eða um 50 millj. kr. af tæplega 300. Allt sem var umfram kjarnaframlagið voru sérstakar ákvarðanir sem við tókum á grundvelli fjárheimilda sem eru ætlaðar vegna neyðarástands. Kjarnaframlagið á þessu ári var hækkað upp í 110 milljónir sem er þá enn þá ekki nema innan við helmingur af því sem við greiddum á árinu 2023. Stóra spurningin á þessu ári finnst mér miklu síður snúa að því hvort við stöndum við kjarnagreiðslurnar, sem yrðu þá núna í marsmánuði, heldur snýst spurningin miklu frekar um það hvernig við viljum haga okkar heildarstuðningi vegna mannúðarmála á Gaza og hvaða aðrar stofnanir geta þar komið að liði eins og á við bæði um Rauða krossinn og aðrar stofnanir innan Sameinuðu þjóðanna.