154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[13:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú þannig að ég held að við leiðum alltaf fram bestu niðurstöðuna með því að óttast ekki rökræðuna. Það geta komið fram ólík sjónarmið í umræðu um breytingar af þeim toga sem hér eiga við, sjónarmið um það hvort við séum enn að standa vörð um tveggja stoða kerfið, hvað svigrúm stjórnarskráin veitir til þess að koma með sjálfstæðar túlkunarreglur o.s.frv. Ef við erum óttaslegin fyrir þeirri umræðu, hræðumst umræðuna, þá held ég að við rekumst til þess að taka vondar ákvarðanir. Við ættum miklu frekar að fagna opinni málefnalegri umræðu og þann grunn vildi ég leggja með skýrslunni. Ég vonast til þess að nefndin muni ljúka yfirferð yfir skýrsluna og skila af sér áliti eins og ég kallaði eftir en ef hún treystir sér ekki til þess þá bíð ég eftir að fá þau tíðindi.