154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[14:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika og ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir prýðilega skýrslu og yfirlit um stöðu EES-samningsins. Ég tek heils hugar undir með honum að EES-samningurinn er einn mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum undirgengist, mikilvægasti viðskiptasamningur sem við höfum undirritað. Hann hefur falið í sér alveg ótrúlega mikla hagsæld fyrir Ísland frá upphafi. Við sjáum það bara á hagsögu þessara 30 ára sem hann hefur verið í gildi að bæði kaupmáttur og hagsæld hafa verið í auknu samhengi við gildistöku samningsins. Það er beint samhengi þarna á milli.

Ég vil líka hrósa hæstv. ráðherra, af því að ég hef fylgst með honum í störfum í utanríkismálanefnd hér á árum áður og í gegnum tíðina varðandi EES-samninginn. Það er alveg ótvírætt að hann hefur iðulega beitt sér fyrir því að auka hagsmunagæslu Íslendinga, m.a. úti í Brussel, þannig að Ísland væri strax frá upphafi á fleiri stöðum að haka í boxin til þess að gæta íslenskra hagsmuna. Ég vil bæði hrósa honum og þeim utanríkisráðherrum sem á undan honum hafa verið, þeir hafa verið vel meðvitaðir þegar liðið hefur á samninginn hversu mikilvægt það er að rödd okkar heyrist þarna úti þegar verið er að undirbúa ýmsar gerðir sem hafa áhrif á okkar samfélag. Þetta gera öll önnur lönd, hvort sem þau eru innan ESB eða utan, og við þekkjum að Norðmenn setja ómældar fjárhæðir í þá hagsmunagæslu sína.

Ég vil einnig taka undir það að það er mikið fagnaðarefni að Samtök atvinnulífsins eða atvinnulífið sé nú að koma með ákveðnari hætti að þessari hagsmunagæslu, því að það er ekki þannig að við getum bara setið og ætlast til þess að allir komi með allt til okkar og ekki sinnt okkar málum eða jafnvel gefið líka á móti. Það eru miklir almannahagsmunir fólgnir í því að við gætum að einsleitninni, sem er svo mikilvægur þáttur í öllu EES-samstarfinu.

Ég ætla hins vegar ekki að draga dul á það að síðan samningurinn var gerður fyrir 30 árum höfum við Íslendingar ekki farið í það að endurmeta hagsmuni okkar, út frá viðskiptum, út frá efnahagslegum forsendum, félagslegum forsendum, en ekki síst öryggislegum forsendum. Og við erum að sjá það að ýmis lönd innan Evrópusambandsins hafa — bara nú í dag eru Svíar að verða aðilar að NATO. Ég sé það á umfjöllun í Noregi, m.a. í nýrri grein frá pistlahöfundi sem kemur frá hægri hagsmunagæslusíðu, Civita, að þar er talað um pólitískan öryggismálaskjálfta til þess að við endurmetum stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu. Og innan hægri flokksins, systurflokks Sjálfstæðisflokksins í Noregi, eru háværar raddir um að það verði að vera hluti af næstu kosningum að vega og meta að nýju, ekki síst út frá öryggissjónarmiðum Noregs, af því að hinar hefðbundnu varnir eru vissulega innan NATO.

En það eru aðrar varnir sem Evrópusambandið er í auknum mæli að taka að sér og ekki síst út frá því að það er mikill þrýstingur frá Bandaríkjunum og hann mun ekki minnka ef Trump tekur við í Hvíta húsinu. Þá mun ábyrgð bæði Evrópuþjóðanna innan NATO en líka innan Evrópusambandsins aukast. Ég nefndi að Evrópusambandið væri til að mynda í auknum mæli að huga að þessu innra öryggi, mýkra örygginu, hvort sem það heitir netöryggi eða innviðaöryggi o.s.frv. Það er hluti af heildarmyndinni um öryggi þjóða, þetta frumhlutverk ríkja er að gæta að öryggi borgaranna.

Við í Viðreisn munum ekki hætta að draga það fram að við verðum að vera síkvik í því að vega og meta hagsmuni Íslands, hvort þeim sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Í dag eru svo sannarlega þær aðstæður að við eigum að draga fram það mat og segja það kinnroðalaust, vera ófeimin við að skoða hvar hagsmunum okkar er borgið, ekki bara efnahagslegum og félagslegum hagsmunum heldur líka öryggislegum hagsmunum. Við sjáum þessa umræðu taka aukið svigrúm, m.a. í norskri pólitík, og við eigum ekki að þurfa að bíða eftir því hvað aðrar þjóðir gera.

Við eigum, virðulegi forseti, iðulega að meta þetta, hafa frumkvæði að því. Við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við höfum haft frumkvæði í öryggismálum. Við höfum haft frumkvæði í utanríkismálum almennt, ekki síst þegar við sögðum skýrt og skorinort í mars 1949 að við vildum eiga okkar dýrmætu lýðræðislegu rödd við borð Atlantshafsbandalagsins. Það hefur svo sannarlega verið mikið gæfuspor fyrir okkur Íslendinga eins og öll önnur skref sem við höfum tekið markvisst inn í meiri og dýpri samvinnu við aðrar þjóðir, hvort sem það var í gegnum NATO-aðildina 1949, í gegnum enn meira og markvissara Norðurlandasamstarf; EFTA-aðildin var okkur líka mikilvæg svo að ég tali nú ekki um samninginn sem við erum að ræða. Og varðandi þennan samning; á meðan ástandið er óbreytt og við erum ekki að stíga nein önnur skref þá er gríðarlega mikilvægt að við gætum vel að því að ekki hökti í vörnum um EES-samstarfið. Það er að mínu mati gríðarlega mikilvægt. Það hafa verið blikur á lofti í kjarasamningsmálum á umliðnum dögum og vikum en ég fullyrði að íslenskur vinnumarkaður hefur tekið stórstígum framförum með tilkomu EES-samningsins.

Ég vil hins vegar hvetja aðila vinnumarkaðarins til að nota það tækifæri vel að merkja til að taka enn frekari skref í átt að því að vera með fyrirsjáanlegra módel, fara í það sem eykur fyrirsjáanleika fyrir almenning í landinu og fyrirtækin og huga að því hvort ekki sé hægt að koma upp skilvirkara og framsýnna kjaramarkaðsmódeli. En það hangir auðvitað saman við það að við erum með handónýtan gjaldmiðil. Auðvitað fer verkalýðshreyfingin og launþegahreyfingin fram með ákveðnum hætti þegar öryggið er ekkert, þegar fyrirsjáanleikinn er enginn, með íslensku krónuna, sem tekur jafn harðan til baka þær kjarabætur sem íslenskur almenningur hefur raunverulega unnið sér fyrir.

Þegar við í Viðreisn erum að tala um að við munum ekki gefa eftir þá umræðu að við viljum endurmeta hagsmuni Íslands í þessu samhengi þá er það út af því að við setjum almannahagsmuni alltaf framar sérhagsmunum. Og það eru almannahagsmunir að tala okkur frá íslensku krónunni og inn í Evrópusambandið, en það er önnur saga.

Ég var jú m.a. að tala um kjarasamningsmálin og tengdi það við krónuna. Í tengslum við EES-samninginn, þann mikilvæga samning, sjáum við líka þær miklu framfarir sem hafa orðið á markaðnum hér heima, hvort sem við ræðum rétt launþega, neytendavernd, samkeppnismálin. Ég vil þó gagnrýna ríkisstjórnina harkalega fyrir það að innleiða ekki allar þær gerðir sem ýta undir enn frekari samkeppni og ekki síður réttindi almennings þegar á almenningi er brotið með stórfelldum brotum á samkeppnismarkaði, eins og við höfum nýlega orðið vitni að þegar kemur að markaðnum og skipaflutningum. En það hefur samt orðið þannig að þau framfaramál og skref sem hafa verið stigin í samkeppnismálum hafa verið að undirlagi EES-samningsins. Hann hefur ýtt okkur áfram í átt að meiri samkeppni og aukinni neytendavernd.

Við höfum líka horft fram á framfarir af félagslegum toga og af efnahagslegum toga. Ég gæti haldið langa ræðu um öll þau tækifæri sem við höfum öðlast til menntunar, við höfum víkkað út menntunina, ég get nefnt rannsóknarsjóði, rannsóknarsamstarf. Við Íslendingar höfum af djörfung og dug en líka af fróðleiksfýsn farið inn í þetta mikilvæga samstarf sem er byggt á grunni EES-samningsins.

Ég get líka talað um menningarmálin, það er ótrúlega margt sem er verið að styðja við okkur hér heima í gegnum EES-samninginn en við höfum líka miðlað út. Það er alltaf það sem ég er að biðja fólk um að huga að, það er ekki bara spurningin um hvað við fáum út úr þessu öllu saman heldur líka hverju við getum miðlað, af því að við höfum svo mörgu að miðla á ákveðnum sviðum, hvort sem er á sviði lýðræðis, þekkingar, jafnréttis eða á sviði menningarmála; við getum síðan miðlað því áfram til að halda einingu og samstöðu um lýðræðislega frjálsa Evrópu. Það veitir ekki af núna að ýta undir þá samstöðu á meðal Evrópuþjóða. Ég hef áður rætt það hér, ætla ekki að eyða miklum tíma í það, hvað ég óttast ef Donald Trump verður forseti Bandaríkjanna. Þá verðum við svo sannarlega að endurmeta stöðu okkar því að mikilvægur samningur okkar, tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin, hefur dugað okkur ótrúlega vel. Hann er mikilvægur en ekki hafa verið tekin upp samtöl af hálfu þessarar ríkisstjórnar, þó að við í Viðreisn höfum ítrekað hvatt til þess, við Bandaríkin um það hvort við getum sett inn í samninginn, þennan tvíhliða varnarsamning, árás á sæstrengi hjá okkur eða ef netið er tekið niður o.s.frv. En það hefur ekki verið gert og ég óttast að staða okkar muni breytast mjög ef Bandaríkin verða síðan með Trump í Hvíta húsinu næstu fjögur ár. Þá verðum við að vera tilbúin. Það á ekki að hrekja okkur inn í eitthvert ferli heldur verðum við að vera undirbúin undir það.

Ég vil draga það fram hve það skiptir miklu máli að vera í svona alþjóðlegu samstarfi eins og EES-samstarfið er. Ég er búin að tala um menningarmálin og menntun og náttúrlega viðskiptin öll sem við höfum farið í, um nýsköpunina sem hefur aukist á þessum tíma og svo er það auðvitað vinnuverndin sem er meiri í dag en áður. En auðvitað er þessi listi í samhengi EES-samningsins ekki tæmandi.

Það væri hægt að greina frá mörgu öðru en ég vil sérstaklega fagna þeim tónum, sem ég vona að heyrist áfram af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. utanríkisráðherra, að menn geri sér grein fyrir mikilvægi samningsins. Þá þarf staðfesta, vilji, kraftur og þor að vera til staðar óháð því hvaða raddir koma úr baklandinu, óháð því hvað hin og þessi afturhaldsöfl, sem þau eru að mínu mati, eru að segja um samninginn og það sem þarf að gera til að verja hann. Það er mikilvægt að við klárum þau skref sem þarf að stíga, eins og til að mynda bókun 35, til að verja þennan mikilvæga samning. Ég gat ekki lesið ráðherra áðan öðru vísi en svo að hann komi með og beini skýrslunni til okkar í utanríkismálanefnd, og ég horfi á mjög öflugan formann hv. utanríkismálanefndar sem hefur haldið mjög vel utan um allt starf nefndarinnar. Í kjölfarið á umfjöllun í gær er alveg ljóst að það er brýnna en áður að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi. Ég held að umfjöllun nefndarinnar í gær, mjög málefnaleg umfjöllun bæði embættismanna ráðuneytisins og sérfræðinga — þá er það ábyrgðarhluti af hálfu okkar að klára það ekki að verja rétt almennings svo að hann geti gengið að því vísu að það sé einsleitni á Evrópska efnahagssvæðinu, að almenningur, fyrirtæki og lögaðilar séu ekki að missa af tækifærum af því að Alþingi stóð sig ekki. Ég vil undirstrika það að Viðreisn er tilbúin í að gera allt til þess að liðka fyrir því að við afgreiðum þetta mál af því að það eru almannahagsmunir að klára það núna.

Og ef það er það sem þarf til er besta leiðin, og ég vil beina þessum orðum til hv. formanns utanríkismálanefndar, að við komum einfaldlega sjálf frá nefndinni fram með mál, þ.e. frumvarp frá nefndinni, sem felur það í sér að við klárum þetta mál varðandi bókunina. Það er mjög góður rökstuðningur frá fyrra frumvarpi. Það líka mjög góður rökstuðningur, eins og bent var á fyrir nefndinni í gær, sem kemur fram hjá Hæstarétti. Þetta er einstakur dómur Hæstaréttar og hann varðar svolítið leiðina og vísar okkur veginn um hvað við þurfum að gera. Ég segi því: Hæstiréttur hefur talað. Af hverju eigum við að bíða eftir því hvað EFTA-dómstóllinn segir?

Ég lýsi því yfir hér og nú fyrir hönd Viðreisnar að við erum tilbúin til þess að klára þetta mál af hálfu nefndarinnar, að breyta því úr áliti um skýrslu yfir í frumvarp sem við getum síðan afgreitt hér. Af hverju? Til þess að standa vörð um EES-samninginn, til þess að standa vörð um aukna hagsæld, til þess að standa vörð um aukin lífsgæði, til þess að standa vörð um almenning í landinu.