154. löggjafarþing — 82. fundur,  7. mars 2024.

framkvæmd EES-samningsins.

581. mál
[15:35]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að viðurkennast að sá sem hér stendur hefur ekki alltaf verið sérstakur talsmaður EES-samningsins en hefur kannski að einhverju leyti þroskast með árunum. Það sem snýr að hagsmunagæslunni, ef maður fer dýpra og dýpra inn í það hvaða hagsmunir eru undir í 30 ára sögu samningsins, við tókum hann upp 1. janúar 1994 — sérstaklega þegar maður kemur úr fluggeiranum og veltir fyrir sér hlutum þar. Það er aðeins reifað í þessari skýrslu sem snýr að Flugöryggisstofnun Evrópusambandsins og mikilvægi þess fyrir Ísland að vera hluti af þessu kerfi. Það er raunverulega ein af forsendum fyrir því að við getum rekið þennan öfluga flugiðnað sem við gerum á Íslandi í dag, eins og ég minntist á áðan. Flækjustigið væri þannig að ef við hefðum ekki aðgengi að þessu þá gætum við ekki sem lítil þjóð borið upp það sem þarf að bera uppi í jafn flóknum iðnaði og flugiðnaðurinn er. Og hvað varðar hagsmunagæsluna þá hef ég verið sérstakur áhugamaður um það og hef verið að reyna að nálgast það hvernig maður ber sig að við skýrslubeiðni um það sem snýr að þessari mikilvægu atvinnugrein á Íslandi og áhrif EES-samningsins á hana. Þá á ég eftir að minnast á það þegar Evrópusambandið semur árið 2009 við Bandaríkin og Kanada um „Open Skies“, með leyfi forseta, ég þekki ekki íslenska heitið yfir það. Þá opnaðist alveg flugið á milli. Við urðum síðan í gegnum EES-samninginn, ásamt Norðmönnum, hluti af þessu árið 2011 og gríðarlegir hagsmunir undir og þá byrjaði þessi gríðarlega flugstarfsemi og fjölgun flugleiða milli heimsálfanna, bæði hjá WOW air á sínum tíma og Icelandair, og við erum að upplifa það þessa dagana líka. Þar er því ýmislegt sem er þarna undir og svo getum við talað um stóriðju í landinu og raforkuframleiðslu.