154. löggjafarþing — 83. fundur,  11. mars 2024.

fjármögnun kjarasamninga.

[15:11]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að jafnaðarfólk hefur talað fyrir mörgum þeim útgjaldatillögum sem hér koma fram en það er partur af heildstæðri stefnu sem er mótuð í upphafi kjörtímabila. Hér hefur þessi ríkisstjórn setið í sjö ár og aldrei viljað tala fyrir slíkum úrbótum en mætir núna, ári fyrir kosningar eða hálfu ári eða einu og hálfu ári eða hvað svo sem það er, í aðdraganda kjarasamninga með breytta stefnu, sem er gott og vel en þetta er ekki fjármagnað, eins og hæstv. fjármálaráðherra reyndar bendir hér á.

Hér er enginn endilega að tala um hækkun á millitekjuhópana en ég ætla bara að kasta því hér fram að fyrir jól var mikill sársauki sem fólst í að finna 9,5 milljarða í niðurskurð sem hafði mikil áhrif á opinbera markaðinn sem á enn eftir að semja fyrir. Verður ráðist í niðurskurð, til að mynda hjá opinberum aðilum sem bitnar á þeim aðilum sem eiga eftir að sækja kjör sín?

Ég ætla líka að spyrja í því samhengi hvort hæstv. fjármálaráðherra hefur skoðað tillögur Samfylkingarinnar varðandi fjármögnun, hvort sem það er hækkun fjármagnstekjuskatts, veiðigjalds eða afturköllun á bankaskatti, að hluta til eða öllu leyti. Það er hægt að finna þetta fjármagn. Ef þetta leiðir til niðurskurðar sem bitnar á starfsaðstæðum (Forseti hringir.) opinbera markaðarins þá er það erfitt samningsumhverfi að labba inn í næstu vikurnar.