154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

frjósemisaðgerðir.

233. mál
[17:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir að taka hér upp umræðu um ófrjósemisaðgerðir og -meðferðir hér á landi. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir sviðið og beinir til mín fjórum spurningum. Í fyrsta lagi: Hvaða opinberir aðilar sjá um frjósemisaðgerðir á Íslandi, svo sem tæknisæðingar og glasafrjóvgun? Því er fljótsvarað: Engir opinberir aðilar sjá um frjósemisaðgerðir á Íslandi, svo sem tæknisæðingu og glasafrjóvgun. Í framhaldi af því er spurt: Hvernig er eftirliti háttað með starfsemi Livio, sem er það fyrirtæki sem sinnir þessum meðferðum, bæði fjárhagslegu, þ.e. gjaldskrá, og faglegu? Svarið við þeirri spurningu er að embætti landlæknis veitir leyfi til að nota starfsheiti löggiltra heilbrigðisstétta og til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Embætti landlæknis fer með eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsfólki auk þess að veita starfsleyfi. Þar sem ekki er í gildi samningur um tæknifrjóvgunarmeðferðir er ekki sérstakt eftirlit haft með gjaldskrá Livio, en það er gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sem gildir samkvæmt reglugerð nr. 1239/2018, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga gildir einnig um þjónustu annarra þjónustuveitenda innan Evrópu á grundvelli landamæratilskipunar.

Þá spyr hv. þingmaður hver sé þá niðurgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á þjónustu Livio og af hverju taki niðurgreiðslan þá mið. Því er til að svara að sjúkratryggingum er heimilt, samkvæmt áðurnefndri reglugerð nr. 1239/2018, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem eru veittar án samnings, að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra vegna tæknifrjóvgunarmeðferða á grundvelli gjaldskrár sem Sjúkratryggingar Íslands gefa út. Þetta á sér lagastoð í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands tekur þannig mið af kostnaðargreiningu. Endurgreiðslan er sem hér segir, sem hv. þingmaður spyr um:

5% af fyrsta skipti í glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun, 65% af öðru til fjórða skipti í glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun og síðan 65% af eftirtöldu vegna eggheimtu og frystingar eggfrumna, eða eftir atvikum fósturvísa, þegar um er að ræða konur með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings; fyrir að þíða egg og frjóvga, samanber a-lið 3. töluliðar, eða eina uppsetningu á fósturvísi sem hefur verið frystur. Þá er það vegna ástungu á eista og frystingar sáðfrumna, eða eftir atvikum fósturvísa, þegar um er að ræða karlmenn með yfirvofandi ófrjósemisvandamál vegna fyrirsjáanlegrar lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings. Endurgreiðsla er jafnframt vegna geymslugjalds á frystum fósturvísum, eggfrumum og sáðfrumum í þeim tilfellum sem tilgreindir eru í töluliðum a og c, þó að hámarki í tíu ár. — Ég held að við höfum nú breytt þessum tímamörkum, þessu tíu ára marki, held ég að ég geti fullyrt hér þegar ég sé þessar tölur sem ég hef í þessu svari. Einnig er endurgreiðsla sjúkratrygginga vegna fyrsta skiptis í glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun þegar um er að ræða ófrjósemisvandamál vegna lyfjameðferðar, geislameðferðar eða beinmergsflutnings.

Innifalið í meðferð skv. 1., 2. og a- og e-lið 3. töluliðar er kostnaður vegna nauðsynlegra rannsókna, viðtöl við sérfræðinga og nauðsynleg lyf vegna meðferðarinnar, önnur en örvunarlyf eggjastokka, en um greiðslu þeirra fer samkvæmt reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði.

Ef ekki er unnt að ljúka meðferð sem hafin er greiða Sjúkratryggingar Íslands 20% af heildarverði meðferðar samkvæmt gjaldskrá sjúkratrygginga.

Að lokum spyr hv. þingmaður: Hversu mörgum einstaklingum hafa einkarekin fyrirtæki sem sinna frjósemisaðgerðum sinnt síðastliðin fimm ár og hversu mörgum hefur verið synjað um þjónustu? Eitt einkarekið fyrirtækið sinnir frjósemisaðgerðum hér á landi. Á síðastliðnum fimm árum hefur það sinnt alls 2.168 einstaklingum eða pörum sem þurftu að frjósemismeðferð að halda. Auk þess fóru 44 einstaklingar í gegnum eggfrystingarmeðferð til frjósemisvarðveislu. (Forseti hringir.) Þess ber að geta að einstaklingar eða par gætu þurft á fleiri en einni meðferð að halda (Forseti hringir.) eða geta þurft að ganga í gegnum fleiri en eina tegund meðferðar. — Ég skal klára þessa síðustu spurningu í seinna svari.