154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

endurskoðun laga um almannavarnir.

687. mál
[18:03]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu hér. Mig langar að minnast á frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um að endurvekja rannsóknarnefnd almannavarna og vil hvetja hæstv. ráðherra til að horfa til þess við heildarendurskoðun almannavarnalaganna. Ég held að það hafi verið ákveðin mistök hjá okkur þegar við tókum það út úr lögum um almannavarnir hér fyrir nokkrum árum síðan, þar sem við gerðum þó mikilvægar og góðar breytingar á þeim lagabálki.

Mig langar líka að nefna það hér í þessu samtali, því eins og ráðherra kom inn á þá erum við búnir að glíma við almannavarnaástand í ofboðslega langan tíma, að ég er algerlega sannfærð um það að í löndunum í kringum okkur, ef þau væru að glíma við ástand eins og við erum að glíma við á Reykjanesinu þá væri herinn komi til taks. Herinn hefði væntanlega byggt upp varnargarða og herinn myndi nýta sína þekkingu og afl til að bregðast við. Ég held að það sé mikilvægt að við horfum á aukið samstarf við Norðurlöndin á sviði almannaöryggis, samfélagsöryggis. (Forseti hringir.) Þá er ég bæði að vísa í auðvitað herinn og hvernig norrænir herir (Forseti hringir.) geta komið okkur til aðstoðar en ekki síður hvernig Norðurlöndin geti sameinast um bæði kunnáttu, (Forseti hringir.) tæki og tól til að takast á við almannavarnaástand.