154. löggjafarþing — 84. fundur,  11. mars 2024.

skipulögð brotastarfsemi, vopnanotkun og refsiheimildir.

570. mál
[18:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu hér og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst að skipulögð brotastarfsemi er orðinn kaldur raunveruleiki hér á Íslandi og því er mikilvægt fyrir okkur hér, löggjafann, framkvæmdarvaldið, ráðherrana, að veita lögreglunni þau tæki og tól sem þau þurfa á að halda til að ráða niðurlögum skipulagðrar brotastarfsemi.

Nýverið áttum við í forsætisnefnd Norðurlandaráðs góðan fund með fulltrúa frá ríkislögreglustjóranum í Svíþjóð þar sem hann fór einmitt yfir þessa hryllilegu glæpi og þróun sem Svíar horfa fram á. Ég vil taka undir það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að þegar verið er að nýta börn í þessa hrikalegu glæpi þá er þetta auðvitað félagslegt vandamál. Þetta er félagslegt vandamál vegna þess að hópur fólks hefur verið settur í þá stöðu að eiga ekki sömu tækifæri í samfélaginu og aðrir. Af þessu held ég að við þurfum að læra. Við þurfum að tryggja að öll börn á Íslandi eigi sömu tækifæri í íslenska skólakerfinu óháð uppruna sínum (Forseti hringir.) og við þurfum að koma í veg fyrir það að erlend glæpasamtök nái hér fótfestu (Forseti hringir.) eins og þau hafa svo augljóslega gert í Svíþjóð og eru því miður merki um að þau séu að ná mikilli fótfestu hér líka.