154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hér hefur þingmönnum verið tíðrætt um það hvernig á að fjármagna aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum breiðfylkingar og Samtaka atvinnulífsins, tímamótakjarasamningum. Það hefur verið nefnt af alls konar sérfræðingum, hagfræðingum og fulltrúum hvaðanæva að að það sé bara þrennt í stöðunni; þ.e. annaðhvort að hækka skatta, draga úr framleiðni eða þenslu eða jafnvel taka erlend lán. Engum einasta einstaklingi hefur dottið í hug það augljósa; það sem Flokkur fólksins hefur hér sex sinnum mælt fyrir þingsályktunartillögu um þar sem við förum fram á það að lífeyrissjóðir fái ekki lengur undanþágu frá staðgreiðslu skatta. Bara það að afnema undanþágureglu lífeyrissjóðanna um staðgreiðslu skatta við innborgun í sjóðina gæfi ríkissjóði hátt í 70 milljarða kr. á ári. Það er enginn með okkur á svona tillögu, ekki nokkur einasti aðili vegna þess að svarið sem kemur er: Ætlið þið virkilega að fara að taka jafnvel 34% í staðgreiðslu við innborgun þegar einstaklingurinn gæti verið að ávaxta þetta alla sína starfsævi? Ég segi á móti: Fussum svei. Ég veit ekki betur en að þeir sem hafa í sveita síns andlitis stritað á meðallaunum og lægstu launum alla sína starfsævi fái í rauninni baun í bala. Og það litla sem kemur frá lífeyrissjóðunum í greiðslu í fyllingu tímans er skert frá almannatryggingum. Viðkomandi er í rauninni nánast undir lágmarkslaunum eftir alla sína starfsævi ef hann hefur ekki verið svo heppinn að komast á spenann hjá hinu opinbera og fengið að maka krókinn þar í enn þá betri og virðulegri lífeyrissjóði heldur en hinn almenni launþegi í landinu. Þannig að ég segi: Það er löngu, löngu tímabært að afnema þessa sérreglu sem er utan um lífeyrissjóðina og gefa okkur kost á því að koma þessum tæplega 70 milljörðum kr. í okkar sameiginlegu sjóði á hverju einasta, einasta ári.