154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Fyrrverandi nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, Gylfa Zoëga, var í athyglisverðu viðtali á Eyjunni fyrir nokkru. Þar lét hann m.a. þessi orð falla, með leyfi forseta:

„Krónan er samkeppnishindrun. Þú hefur tryggingastarfsemina, þú hefur bankastarfsemina. Það er alls staðar renta í þessu hagkerfi sem fólk fær. Það er jákvætt þegar renta verður til eins og þegar Apple býr til síma, þá verður til renta af því að þeir eru með besta símann. En það er ekki jákvætt að það sé til renta vegna þess að það er engin samkeppni vegna þess að þú ert í svo lokuðu hagkerfi að enginn vill vera hérna og þú ert með gjaldmiðil sem er svona sveiflukenndur.“

Þetta eru stór orð frá manni sem þekkir íslenskt hagkerfi út og inn. Það er ekki hægt að lesa neitt annað út úr orðum hans en að íslenska krónan sé í raun ónothæf fyrir aðra en þá sem eiga fyrirtæki sem þrífast vel í skjóli fákeppni. Fyrirtækin sem þrífast í slíku skjóli eru nokkur og samráð þeirra hefur kostað íslenskan almenning tugi milljarða í formi hærra vöruverðs en ekki síður vegna aukinnar verðbólgu sem stóraukið hefur greiðslubyrði íslenskra heimila. Það sást bersýnilega í samráði skipafélaganna. Það skiptir heldur ekki miklu máli við hvaða tryggingafélag þú átt viðskipti við né heldur í hvaða banka þú leggur inn í launin þín. Kjörin eru alltaf sambærileg. Hvaða erlenda tryggingafélag eða banki ætti að vilja hefja hér starfsemi þegar gjaldmiðillinn sveiflast eins og strá í vindi og fyrirsjáanleikinn er enginn? Hvaða langtímafjárfestir ætti að vilja koma hingað í skugga áhættu, bæði af gengissveiflum og gjaldeyrishöftum? Hver er kostnaðurinn við krónuna þegar þú tekur með í reikninginn að hún er samkeppnishindrun sem ýtir burt erlendri fjárfestingu og verndar fákeppni?