154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ræðum um tekjutap kvenna vegna barneigna. Hér á landi er staðan enn sú að konur taka meiri hluta fæðingarorlofsins og eru mun líklegri til að lengja það eða fara í hlutastarf að því loknu í þeim tilgangi að brúa svokallað umönnunarbil. Hvort tveggja leiðir til langvarandi og tilfinnanlegs tekjutaps fyrir konur á vinnumarkaði. Mér finnst alltaf jafn athyglisvert að heyra fólk útskýra afstöðu sína til töku fæðingarorlofs með tilliti til kynja. Fyrir karla er ákvörðunin oftast nær efnahagsleg. Ég meina, hvaða strákur getur lifað af 600.000 kr. á mánuði fyrir skatta? Þetta er mjög einföld efnahagsleg ákvörðun, ekki satt? Minna ber á sömu viðbrögðum þegar konur eiga í hlut. Það er eins og þá sé þegjandi samkomulag um það í hinni heimsfrægu jafnréttisparadís að tekjutap kvenna vegna fæðingarorlofstöku sé náttúrulögmál, a.m.k. ekkert sem þurfi að gera veður út af, enda geta kerlingar lifað af því sem þeim er rétt. Afstaðan endurspeglar rótfastar hugmyndir um stöðu kvenna í samfélaginu, á vinnumarkaði og á heimilinu. Hún endurspeglar líka blákaldar staðreyndir um muninn á tekjum kvenna og karla á Íslandi. Atvinnutekjur kvenna eru 21% lægri en karla. Það er óhagganleg staðreynd og af því verða alls kyns afleiddar og afleitar afleiðingar. Tekjufórn kvenna á vinnumarkaði vegna fæðingarorlofstöku er langt frá því að vera sjálfsögð. Hún leiðir til lægri ævitekna, verri kjara og verri réttinda á vinnumarkaði og að lokum til lægri eftirlauna þegar kemur að því að setjast í helgan stein, eins og það er kallað. Að þessu leyti eru konur enn til færri fiska metnar en karlar í íslensku samfélagi og á íslenskum vinnumarkaði og það er löngu orðið tímabært að fæðingarorlofi sé jafnt skipt á milli foreldra.