154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vil fylgja aðeins eftir ágætri umræðu sem var hér í þingsal í gær um fíknivandann. Eins og stundum er þá kemur í ljós ákveðinn samhljómur á milli okkar þingmanna, alveg óháð því hvar við stöndum í hinu pólitíska litrófi. Það er mikill vilji í þessum sal til að gera betur í þjónustunni við þennan viðkvæma hóp. Hins vegar er það oft þannig að þegar við förum síðan niður í einstaka aðgerðir þá fer svolítið að bera á því að við séum ekki alveg sammála um hvað á að gera. Við getum nefnt þegar við förum að tala um áfengi í verslunum, netverslun með áfengi, afglæpavæðingu eða jafnvel lögleiðingu og hver áhrifin af þessu eru á samfélagið og allt það, þá dragast kannski upp átakalínur þar sem við erum ekki öll sammála. En það kom hins vegar glögglega fram í gær að við erum þó sammála um að við þurfum að gera betur í því að þjónusta það fólk sem er veikt af þessum alvarlega sjúkdómi. Mig langar svolítið að nefna í þessu samhengi að alveg sama þótt við komumst að bestu lausn allra lausna í þeim álitaefnum sem ég var að nefna hér áðan með áfengi í verslunum, afglæpavæðingu, lögleiðingu eða hvað það er, þá mun staðan alltaf verða sú — það er bara staðreynd — að þarna úti verður ótrúlegur fjöldi fólks sem þjáist áfram af þessum sjúkdómi. Við megum því aldrei í umræðunni um öll þessi atriði gleyma því að í raun og veru snýst grundvallarspurningin um rétt fólks til þess að fá þjónustu heilbrigðiskerfisins þegar það er hvað veikast. Það er líka spurningin um að börn eigi rétt á því að foreldrar þeirra fái þjónustu til að þau alist upp í eðlilegu umhverfi.

Ég er að leggja fram þingmál um að við veitum 100 millj. kr. beint til SÁÁ til þess að fjármagna að fullu þá viðhaldsmeðferð sem þar er í gangi út af ópíóíðafíkninni. (Forseti hringir.) Það þýðir síðan að þeir fjármunir sem SÁÁ veitir í þá meðferð munu frekar nýtast til þess að bjóða einmitt upp á það sem er algjört grundvallaratriði; heilbrigðisþjónustu fyrir veikt fólk þegar það þarf á henni að halda.