154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna hér þá staðreynd að Ísland er háskattaland. Ég held að almenningur á Íslandi sé meðvitaður um það að hér er verðbólga tíðara vandamál en þyrfti að vera, að við greiðum hærri vexti en þyrfti að vera. Við höfum núna í samhengi við heimsfaraldurinn verið með lengri verðbólgukafla en aðrar þjóðir, við förum hærra upp í vöxtum og þetta veit fólk. Færri vita og færri tala um að við greiðum háa skatta í alþjóðlegum samanburði. Íslenskur almenningur greiðir háa skatta í alþjóðlegum samanburði. Önnur hver króna sem hagkerfið skapar fer í skatta og lífeyrisgreiðslur. 70% skattanna og gjaldanna eru síðan greidd af þriðjungi þjóðarinnar og birtingarmyndirnar eru allt frá því að vera dýrasta bjórkrús Evrópu yfir í töluvert háan tekjuskatt þar sem hann fer hæst. Mér finnst skipta máli að við tölum um það hér inni í þessum sal að það er ástæða til að beina því til stjórnvalda að sýna hófsemi í skattlagningu á almenning. Auðvitað er það þannig að við viljum fá þjónustu og við viljum greiða fyrir þjónustuna en í því samhengi skiptir líka máli að nefna, af því við erum að tala um það núna hvað það er mikill ávinningur í því að lækka vexti og ná niður verðbólgu, að íslenska ríkið er á sama stað og almenningur með það að það er að sprengja sig á vaxtakostnaði. Þess vegna eigum við að reyna að koma í veg fyrir dýrar lántökur ríkisins því þær skilja okkur eftir í þeirri stöðu að almenningur er að greiða háa skatta án þess þó að fá þjónustuna fyrir, án þess þó að við séum með heilbrigðisþjónustu án biðlista, án þess þó að við séum að fjárfesta af krafti í samgöngum, án þess þó að við fjárfestum í löggæslu. (Forseti hringir.) Háu skattarnir skila ekki þjónustu vegna þess að íslenska ríkið er að sprengja sig á vaxtakostnaði.