154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

101. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér öðru sinni fyrir þingsályktunartillögu um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni. Ég vil byrja á því að fagna þeirri miklu umræðu sem þetta mál fékk þegar það var flutt hér á síðasta þingi. Það fór mikil umræða fram í þjóðfélaginu í framhaldinu sem sýndi mikilvægi þess að hið háa Alþingi tæki þetta mál til umfjöllunar og að stjórnvöld myndu reyna að átta sig á stöðunni varðandi notkun efna eins og sílósíbíns. Við fundum fyrir því að það voru margir farnir að pæla í þessum efnum og nota þau jafnvel. Það er orðinn stór, hvað skal segja, falinn markaður með þetta og falin notkun og því höfum við útbúið þessa þingsályktunartillögu til að reyna að ná utan um málið. Mikilvægi hennar er helst það að notkunin er orðin það mikil og það eru margir sem eru í þannig ástandi að þeir eru að leita sér aðstoðar og hjálpar og það fer mikil umræða fram í heiminum öllum og meðal stærstu háskóla heims um virkni hugbreytandi efna eins og sílósíbíns og margir leita þá í örvæntingu sinni í þessi efni af því að þau virka fyrir svo marga og eru að gefa góða raun. Við hér á Íslandi höfum ekki farið varhluta af því og þess vegna útbjuggum við þessa þingsályktunartillögu þar sem þetta efni er ekki leyfilegt hér. Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk getur ekki ávísað því eða veitt meðferðir með efninu og því bjuggum við til þessa þingsályktunartillögu sem ég ætla að fá að lesa hérna:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samstarfi við aðra ráðherra er málið snertir, að undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi. Tillögur ráðherra liggi fyrir eigi síðar en á vorþingi 2024.“

Það er núna, við myndum gefa því svigrúm þannig að það yrði á vorþingi 2025 eða bara eins fljótt og verða má. En þarna er einmitt kjarni málsins og þess vegna las ég þetta upp. Á meðan stjórnvöld gera ekki heilbrigðisstarfsfólki eða sérhæfðu starfsfólki hér á landi kleift að nýta þessi efni og taka þátt í þeim rannsóknum og tilraunum sem eru í gangi núna víða um heim í þessum efnum, þá stækkar sá hópur sem er að nota þetta á hinum falda markaði eins og ég sagði áðan, fyrir utan heilbrigðiskerfið. Það eykur svolítið líkurnar á því að við förum að fá vandamálin sem geta orðið ef þessu er ekki stýrt af fagfólki, þau verða augljóslega fleiri. Ef það er farið að bjóða þetta af, ef ég má segja svo, svokölluðum skottulæknum eða ófaglærðu fólki þá erum við bara að bjóða hættunni heim og stækka það vandamál sem röng notkun á þessum efnum getur valdið. Við skulum frekar setja skýrar leikreglur og hraða þeim rannsóknum og tilraunum sem er verið að gera með þessi efni í gegnum heilbrigðiskerfið.

Það er mikilvægt að stjórnvöld vinni hratt og séu ekki of hrædd við að taka svona ákvarðanir, séu ekki of passíf heldur takist á við vandamálið áður en vandamálið verður stórt. Það kom strax í ljós þegar umræðan fór af stað fyrir rúmu ári síðan hvað þetta er komið víða hér á landi og hvað umræðan er komin langt hér á landi en líka hvað er hægt að vinna hratt í þessu máli hér á landi. Hér komu á ráðstefnu í Hörpu allir helstu sérfræðingar heims í hugvíkkandi efnum. Það er bara sjaldan sem þeir hafa verið í svo mikilli nálægð sín á milli og sjaldan sem þeir hafa verið í jafn miklu návígi við stjórnkerfið, stofnanir og heilbrigðisstarfsfólk, ráðherra og aðra á sama stað á sama tíma. Þá gerast hlutirnir miklu hraðar og það er það sem við erum kannski að leggja áherslu á hér. Ísland er smátt land og boðleiðirnar stuttar og þá er það kjörið til að vera leiðandi í rannsóknum og tilraunum í þessum málaflokki sem margir af stærstu háskólum heims eru að leggja gríðarlega fjármuni og tíma í að rannsaka. Þannig að við skulum ekki vera smá þó að við séum fá. Við skulum bara taka þessu máli alvarlega. Andleg veikindi, þar sem þetta efni getur hjálpað til, eru því miður vaxandi viðfangsefni innan heilbrigðisgeirans og ef hér er lausn sem getur hjálpað mörgum — þetta verður aldrei töfralausn, hún mun ekki finnast, það þarf fjölbreyttar lausnir. Hér er eitt verkfæri í viðbót í verkfærakistuna og við skulum ekki dvelja lengi við þetta út af hræðslu heldur setja skýrar leikreglur þannig að við getum farið af stað með rannsóknir hér og tekið þennan málaflokk inn í heilbrigðiskerfið á skynsamlegan hátt í staðinn fyrir að láta vandamálið vaxa við hliðina á okkur.

Ég vænti þess að virðuleg velferðarnefnd vinni málið hratt og vel og við tökum ábyrgð á því að klára þetta mál.