154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

101. mál
[17:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Á undanförnum árum hafa rannsóknir á hugvíkkandi efnum til að auka árangur af sálfræðilegum meðferðum gefið vísbendingar um mun betri árangur en áður hefur náðst við þunglyndi og áfallastreitu, svo eitthvað sé nefnt, vegna þess að fólk kemst í mun dýpri tengsl við það sem liggur að baki vandanum. Þetta á sérstaklega við um hugvíkkandi efnin MDMA og sílósíbín. Meðferðir hafa þegar verið leyfðar í Sviss í reyndar nú að verða tíu ár og nú nýverið í Ástralíu og Kanada. MDMA, sem er hluti af þessu meðferðarformi, verður sennilega lögleitt sem lyf við áfallastreitu á næsta ári, þ.e. á þessu ári, virðulegur forseti, í Bandaríkjunum og sílósíbín má reikna með að verði þá lögleitt á næsta eða þarnæsta ári. Það er þegar leyft í Oregon í Bandaríkjunum samhliða sálfræðimeðferð.

Sú tillaga sem hér hefur verið lögð fram er nú lögð fram í annað sinn og hefur verið leitað til heilbrigðisyfirvalda um nánara samstarf í þessum efnum. Þetta er auðvitað umdeilt meðal geðlækna. Ég hef kynnt mér þetta nokkuð vel, rætt við geðlækna beggja vegna borðs en flestir eru sammála um að það megi búast við byltingu í geðlækningum á næstu árum með þessum lyfjum sem eru unnin úr svokölluðum ofskynjunarsveppum. Það eru þegar viðurkenndir lyfjaframleiðendur orðnir til í þessu efni sem eru þá í Kanada m.a. Hægt er að nálgast þetta í gegnum íslensk lyfjafyrirtæki. Rannsóknir hafa sýnt, eins og ég kom inn á, að þetta gagnast afar vel við þunglyndi, kvíða, áfallastreitu og reyndar fíknisjúkdómum. Það hefur verið leitað til Lyfjastofnunar og ráðherra um að fá að gera rannsóknir hér á landi en ekki hafa fengist nein ákveðin svör um það.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni eru gríðarlega miklar og stórar rannsóknir á þessum efnum í gangi víða um heim. Allir virtustu háskólar í heimi eru í mjög viðamiklum, stórum rannsóknum sem eru m.a. kostaðar með þátttöku lyfjafyrirtækja og heilbrigðisyfirvalda. Fjölmargar ríkisstjórnir eru að setja í þetta mikið fjármagn. Það á við um mörg lönd í Evrópu. Til að mynda var ýtt af stað gríðarlega stórri rannsókn í Þýskalandi fyrir kannski svona einu og hálfu ári síðan sem er af stærðargráðu sem við myndum aldrei geta fjármagnað úr íslenskum ríkissjóði. En þetta sýnir alvarleikann sem býr að baki, virðulegur forseti, þegar svo virtir aðilar eru farnir að taka þátt í þessu og Lyfjastofnun Bandaríkjanna er á þröskuldi þess að samþykkja þessi efni sem hluta af meðferð hjá þeim sem glíma við þau veikindi sem hér eru.

MAPS eru þverfagleg samtök í Bandaríkjunum um sálfræðirannsóknir, á ensku, með leyfi forseta: The Multidisciplinary Association for Psychedelic Studies. Þetta eru samtök sem eru búin að vera starfandi hátt í 30 ár á þessum vettvangi. Þau eru búin að klára fasa 3-rannsóknir. Þetta eru þau samtök sem eru á bak við það að MDMA er nú komið í skráningarferli hjá Lyfjastofnun Bandaríkjanna til að nota við áfallastreitu og sem meðferð fyrir meðferðaraðila í námi. Það er reiknað með að Evrópa verði aðeins síðar á ferðinni en reynslan segir okkur að það geti verið 1–2 ár.

Hér var minnst áðan á þá ráðstefnu sem haldin var í Hörpu á síðasta ári, í janúar 2023. Það var mjög áhugavert, ég hafði því miður reyndar ekki tök á að fara þessa ráðstefnu sjálfur, var erlendis, en það var mjög áhugavert að sjá hversu þátttakan var víðtæk. Hingað komu, eins og áður sagði, allir helstu sérfræðingar heims í þessum efnum, bæði frá Bandaríkjunum, Evrópu og víðar að. Ég held að ég fari rétt með að segja að þátttakendur hafi verið átt í 600. Það var alveg gríðarlegur fjöldi af fólki úr íslenskum heilbrigðisstéttum, auðvitað líka áhugafólki um þessi efni, en alveg sérstaklega úr heilbrigðisstéttum frá hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum; sálfræðingum, læknum, hjúkrunarfræðingum sem sóttu þessa ráðstefnu auk fjölda erlendra aðila sem komu hingað sérstaklega til lands til að taka þátt í henni.

Síðastliðið haust var síðan af hálfu íslenskra aðila en með aðstoð þessara samtaka, MAPS í Bandaríkjunum, sem ég vitnaði hér til áðan, haldið námskeið fyrir heilbrigðisstarfsmenn. Ef ég fer með rétt þá skilst mér að það hafi verið 30 manns á námskeiðinu, það hafi verið fullbókað og yfir þriðjungur af þátttakendum hafi komið frá öðrum Norðurlöndum, heilbrigðisstarfsmenn af öðrum Norðurlöndum. Annað slíkt námskeið er fyrirhugað núna á vormisseri og ég held að það sé fullbókað líka. Þarna er þetta eingöngu hugsað fyrir heilbrigðisstarfsmenn, þ.e. lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og aðra slíka, fólk sem hefur réttindi til að meðhöndla fólk sem er með þunglyndiseinkenni. Það hefur verið sótt sérstaklega um til Lyfjastofnunar og heilbrigðisráðuneytisins að heimila innflutning á þessum efnum til notkunar á þessum námskeiðum. Ég veit ekki hvort það hefur fengist en það væri vel ef svo væri.

Ég hafði sjálfur frumkvæði að því þegar ég var dómsmálaráðherra að hafa samband við heilbrigðisráðuneytið og aðra til að kanna það hvort við gætum fjármagnað og fengið fjármögnun á meðferð sem gæti hjálpað föngum á Íslandi, en greiningar segja okkur að langstærstur hluti fanga á við einhvers konar geðræn vandamál að stríða. Hugmyndin var sú — og hún fékkst eftir að ég hafði tækifæri til að tala við sérfræðinga á þessu sviði, m.a. þá sem voru hér á þessari ráðstefnu og þeir sýndu mikinn áhuga á þessu verkefni. Þeir buðu fram, án þátttöku við kostnað, þ.e. þeir vildu ekki taka neitt fyrir sín verk, aðstoð sína við að keyra slíkt prógramm sem er auðvitað ekki neitt í samræmi við umfang slíkra rannsókna á erlendum vettvangi en vissulega hefði verið hægt að gera slíka rannsókn. Þannig held ég að við Íslendingar höfum mikil tækifæri til að hugsa smærra í þessu út af fámenni þjóðarinnar og að við höfum tækifæri til þess að prófa okkur áfram eins og aðrar þjóðir eru að gera undir yfirstjórn heilbrigðisstarfsfólks okkar sem margt hvert hefur orðið þó nokkra þekkingu og reynslu af þessum efnum. Hugmyndin var að fara lengra með þetta en ekki fékkst samþykki heilbrigðisyfirvalda til þátttöku í því. Þetta er ekki ákvörðun sem dómsmálaráðuneytið getur tekið heldur er þetta unnið á vettvangi heilbrigðisyfirvalda, að sjálfsögðu.

Það þarf að tryggja vel þessar breytingar í meðförum sem eru í vændum. Það þarf að tryggja menntun fagaðila. Það þarf að tryggja aðgengi að lyfjum og aðkomu Sjúkratrygginga varðandi kostnaðinn. Það er auðvitað þannig með svona skref eins og svo mörg, og það er ekkert óeðlilegt við það, að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta meðal íslenskra geðlækna. Ég hef rætt og gerði mér far um að ræða við lækna og heilbrigðisstarfsfólk sem er eiginlega sitt hvorum megin borðsins. Ég get þó sagt að allir eru mjög áhugasamir um þá þróun sem er í gangi, fylgjast með af miklum áhuga og það eru upplýsingar á grundvelli þeirra rannsókna sem liggja fyrir nú þegar sem geta gefið okkur miklar væntingar, eða eins og geðlæknar hafa orðað það við mig; að það megi búast við byltingu í geðlækningum, við séum á þröskuldi byltingar í geðlækningum á næstu árum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvaða áhrif það hefði á þá einstaklinga sem hér eru undir að geta mögulega fengið betri bata við sínum meinum sem oft og tíðum eru eru hræðileg og halda fólki frá vinnu og frá lífi í samfélaginu. Og svo eru auðvitað áhrifin á kostnað heilbrigðiskerfisins, en þær kosta, ég ætla að segja milljarða króna, þessar meðferðir í heilbrigðiskerfinu á hverju ári og þetta gæti leitt til, þegar þetta kemur inn að mati sérfræðinga sem ég hef rætt við, milljarða sparnaðar í íslensku heilbrigðiskerfi.

Ég vil hvetja til þess að þingið setji mál eins og þetta í ákveðinn forgang og gefi heilbrigðisyfirvöldum leiðarvísi um það hvert við viljum fara. Við eigum auðvitað að vera þátttakendur, virðulegur forseti, í þessum merkilegu skrefum af þeim mætti sem við mögulega getum.