154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

125. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er spurt um nokkur atriði. Það er svo sem rétt að minna á að upphaflega átti að leggja tölulega samgönguáætlun fram í janúar fyrir ári síðan en hún kom til þingsins og nefndarinnar í haust. Auðvitað hefði verið betra að hún hefði komið fyrr og vinna getað hafist fyrr við verkefnið og auðvitað er gríðarlega mikið af umsögnum og gögnum að fara yfir þar. Já, ég hef talað fyrir því að tengja betur saman það sem er meira að segja í sama ráðuneyti; byggðamálin, vegamálin o.fl., þannig að byggðaáherslur verði jafnvel enn frekar teknar inn líka þegar verið er að vinna að undirbúningi og forgangsröðun verkefna. Ég meira að segja sakna þess úr þeirri tillögu sem við fengum í hendurnar að það hafi ekki verið jafnvel meira samtal á milli sviða í þeim efnum, tillögur til að mynda sem voru að koma í gegnum Byggðastofnun og verkefnið Brothættar byggðir og slíkt sem ég hefði viljað sjá að hefði meiri fyrirferð í áætluninni sjálfri eða tillögunni að henni, sem ég vona að okkur takist að vinna hratt og vel næstu daga og vikur og ljúka.

Varðandi stofnvegina finnst mér að það sé sannarlega ástæða til þess að taka þá sérstaklega fyrir og velta því fyrir sér hvar við eigum eftir stofnvegi sem ekki er bundið slitlag á, sem er á nokkrum stöðum á landinu. Ég vakti sérstaklega athygli á þessu á Skógarströndinni og það háttar sannarlega þannig víðar. Þegar þessi tillaga var upphaflega lögð fram af minni hálfu var það nú bara í upphafi hausts þegar þessi vinna við samgönguáætlun var ekki komin af stað. Eins og kom fram var ég að leggja hana fram í fimmta skipti. Ég vona að þetta eins og annað komi vel til greina og góðrar umræðu í lokafrágangi á þeirri áætlun.