154. löggjafarþing — 85. fundur,  12. mars 2024.

hagkvæmnisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

125. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég bara tek undir að það hefði verið kostur að áætlun hefði verið lögð fram á þeim tíma sem til stóð, í janúar fyrir ári síðan, eins og ég nefndi í fyrra andsvari. Það er þá knappari tími til stefnu varðandi vinnuna af því að nefndin vill líka geta sett mark sitt á það sem út úr þeirri vinnu kemur og yfirferð og forgangsröðun. Fjölmargir gestir hafa komið og margar umsagnir og gestakomum mun ljúka í þessari viku varðandi þetta mál. En það er líka búið að vera fjölmargt annað til umfjöllunar í nefndinni, mörg mál og mörg þegar farin þaðan.

Það er svo sem ekki mikið meira um það að segja. Við erum með þetta og vonandi tekst okkur að ná góðri sátt um lúkningu þess sem fyrst. En vegna þess að hér var talað um reynslu síðasta kjörtímabils af vinnslu við samgönguáætlun þá væntanlega gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því hversu mikið til vansa það var að fá ekki áætlunina strax inn á síðasta þingvetri eins og átti að vera.