154. löggjafarþing — 86. fundur,  18. mars 2024.

Meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

[15:29]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka það að þegar hv. þingmaður spyr mig um orð fjármálaráðherra er svar mitt við því skýrt: Yfirlýsing formanna stjórnarflokkanna stendur. Yfirlýst markmið stjórnarflokkanna sem hafa legið fyrir ekki bara á þessu kjörtímabili heldur líka á því síðasta, þau standa.

Hvað varðar Bankasýsluna þá er það hárrétt að við gáfum út þá yfirlýsingu að við vildum leggja hana niður. Við höfum legið yfir mögulegu fyrirkomulagi og hvernig þeim markmiðum verði best náð að tryggja aðkomu Alþingis, sem líka er fjallað um í þeirri yfirlýsingu, gagnsæi og lýðræðislega umræðu. Niðurstaða okkar varð sú að kynna það frumvarp sem hefur verið í samráðsgátt, sem snýst um það að Alþingi taki söluferlið til umræðu, afgreiði það með skýrum hætti í atkvæðagreiðslu hér á þingi og fái þar með kost á því að kafa ofan í ferlið sem rætt var töluvert um síðast að lagafyrirkomulagið byði ekki upp á, og að ráðist yrði í þetta ferli með opnu útboðsferli sem er það gagnsæjasta sem við eigum. (Gripið fram í.) Það er ástæðan fyrir því að við leggjum þetta til.

Hv. þingmaður segir að það sé ekki búið að leggja niður Bankasýsluna. Það er hárrétt. Það er af því að við höfum eftir heilmikla skoðun ekki fundið endanlegt fyrirkomulag á þessum málum sem við teljum heppilegt, en teljum hins vegar mikilvægt að við viljum uppfylla þau markmið sem við kváðum á um í þessari yfirlýsingu og teljum það frumvarp sem fjármálaráðherra hefur kynnt gera það með fullnægjandi hætti.