154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

heilbrigðiseftirlit.

39. mál
[17:02]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég á ekki annan kost en að bjóða hæstv. ráðherra og hv. þingmanni í eftirlit. Þau eru bara að horfa á hlutina með einhverjum undarlegum augum og ég spyr mig: Á hvern eruð þið að hlusta? Þið eruð hér að gera því skóna að heilbrigðiseftirlitið og þeir sem eru í matvælaeftirliti gangi með hatur í brjósti til atvinnurekenda og geri þeim erfitt fyrir. Það er ekki rétt. Ég bara býð ykkur hjartanlega velkomin norður á Sauðárkrók þannig að þið fáið nú að kynnast þessu og sjá með eigin augum að hlutirnir eru með allt öðru fari heldur en þið eruð að halda hér fram. Skráningarreglugerðin, hæstv. ráðherra, hún er hörmung. Hún er hörmung, sérstaklega fyrir minni atvinnurekendur. Ég var á Ólafsfirði í síðustu viku til að reyna að koma litlum fiskverkanda í gegnum þessa reglugerð. Vonandi er hægt að fá einhverja vitræna umræðu og ég hlakka til að fá þau í heimsókn norður á Sauðárkrók þannig að þau fari nú að endurskoða þessa hluti. Það er auðvitað óþolandi og algjör þvæla að lögfræðingur haldi því fram hér að það séu mismunandi reglur í landinu. En auðvitað er það þannig að það er aldrei (Forseti hringir.) einn eftirlitsmaður sem fer í öll fyrirtæki á landinu. Því þarf að samræma hlutina, (Forseti hringir.) það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra. En ég bara ítreka það, (Forseti hringir.) frú forseti, að ég býð þau hjartanlega velkomin norður í Skagafjörð.