154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

heilbrigðiseftirlit.

39. mál
[17:04]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða og tvennt sem mig langar að nota tímann til að tala um stuttlega og er þessu tengt. Hér spyr hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir hvort ráðherra hyggist einfalda regluverkið og ráðherra fór ágætlega yfir að það var starfshópur sem skilaði skýrslu með tillögum þess efnis. En það eru tvær spurningar sem mig myndi langa að koma hérna að í umræðunni og ef hæstv. ráðherra sér þess kost að svara þeim þá væri það bara gaman. Annars vegar hvaða kosti og galla hann sér við staðbundið eftirlit, þ.e. að eftirlitið, hvernig svo sem það liti út hjá nýjum umdæmum plús tveimur stofnunum eða með einhverju öðru fyrirkomulagi, kosti og galla þess að vera með eftirlit á staðnum en ekki einhvern veginn miðjurekið annars staðar frá. Hins vegar klassísk spurning sem við glímum reglulega við í hv. umhverfis- og samgöngunefnd í þinginu: Hvað líður heildarendurskoðun laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir?