154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

umhverfisþing.

714. mál
[17:41]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Það er gott að heyra á hæstv. ráðherra að það standi til að halda umhverfisþing síðar á þessu ári en ég get ekki tekið undir orð hans um að það sé haldið samkvæmt ákvæðum laganna vegna þess að það er þremur árum síðar en lögin kveða á um, skeikar ekki eina árinu sem hæstv. ráðherra sagði heldur þremur. Sama hvað ráðherra finnst um að eigi að breyta forminu á þessu eða gera þetta öðruvísi þá breytir það því ekki að lögin eru eins og lögin eru og þangað til hæstv. ráðherra leggur til breytingar á þeim og Alþingi samþykkir þær ber honum auðvitað að fylgja þeim.

Ég velti því auðvitað fyrir mér, eins og ég held að við gerum mörg, hvort þessar tafir séu bara enn ein birtingarmynd þeirrar kyrrstöðu sem ríkir umhverfismegin í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Það er svo sem leitun að málaflokki sem ráðherra hefur í alvöru sett í forgang. Kyrrstaðan virðist vera normið frekar en hitt en í umhverfismálunum er hún himinhrópandi. Þessi þriggja ára töf sem ráðherra boðar hér að verði á endanum á því að boða til umhverfisþings er bara ein skýrasta birtingarmynd þess áhugaleysis sem ríkir á ráðherraskrifstofunni.