154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

gervigreind.

652. mál
[18:09]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða og tímanlega og þarfa fyrirspurn. Ég er sérstaklega ánægður með að hv. þingmaður skuli brydda upp á þessu mikilvæga málefni hér í þingsal og spyrja okkur ráðherrana út í þetta. Því er til að svara að ég hef ekki látið framkvæma formleg úttekt á því með hvaða hætti væri hægt að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum á ábyrgðarsviði ráðuneytisins en hins vegar er auðvitað gervigreind og önnur tæknivæðing á fullu flugi og starfsfólk ráðuneytisins og stofnana þess nýta gervigreindina til margvíslegra verkefna. Ég tel mikil tækifæri felast í því að opinberir aðilar nýti gervigreind og opinber gagnasöfn til að bæta opinbera þjónustu og skilvirkni þjónustunnar með ábyrgum, gagnsæjum og áreiðanlegum hætti. En því fylgja líka áskoranir eins og hefur verið rætt hér af fleirum í dag. Það er hin hliðin, sem ég er að koma að hérna. Í okkar opinberu þjónustu og verkefnum og ég tala nú ekki um í þeim viðkvæmu málaflokkum sem eru í mínu ráðuneyti, þurfum við að passa okkur. Við þurfum að ígrunda vel hve langt æskilegt er að gervigreind aðstoði okkur við störf okkar í opinberri þjónustu. Þetta er mikilvæg lína sem nauðsynlegt er að teikna upp.

Ég gæti nefnt ýmislegt en eitt gott dæmi sem mig langar að nefna hér er að Vinnumálastofnun hefur náð miklum árangri með sjálfvirknivæðingu og snjallmenni á heimasíðu sinni á síðustu árum og þar hefur verið unnið markvisst með það að nýta gögn og tækni til að veita skilvirkari og betri upplifun á þjónustu. Mikið af fyrirspurnum sem til stofnunarinnar koma varða réttindi og skyldur og þar er tiltölulega auðvelt að þjálfa upp snjallmenni til að svara fremur en að lifandi einstaklingur svari sömu spurningum frá 9–15. Snjallmenni á heimasíðu Vinnumálastofnunar afgreiða að jafnaði 2.000 samtöl í hverjum mánuði og af því fara einungis um 13% þeirra til ráðgjafa. Það kannski segir okkur að snjallmennið eða gervigreindin er hugsanlega að svara 80–90% fyrirspurna á fullnægjandi hátt. Slíkt hið sama erum við að gera í verkefni sem ég er afar stoltur af í ráðuneytinu, það er verkefnið Gott að eldast. Inn á island.is er núna búið að setja upp upplýsinga- og þjónustuveitu um alla mögulega opinbera og ekki opinbera þjónustu, upplýsingar sem aðgengilegar voru á mjög mörgum ólíkum stöðum, það er sem sagt búið að safna þessu öllu á einn stað. Það er unnið að því núna að þjálfa spjallmenni til að svara og veita leiðsögn um kerfin. Þetta eru dæmi um hvernig við höfum verið að nýta okkur gervigreind til að bæta þjónustu og auka skilvirkni.

Það eru mörg tækifæri í notkun gervigreindar á einstaka málefnasviðum og ég held að það sé kannski fyrst og fremst í bættri þjónustu og frekari skilvirkni eins og þessi dæmi sem ég nefndi bera skýran vott um. Gervigreindin gæti, ef við búum rétt um hnútana, lækkað kostnað á sama tíma og við bætum upplifun fólks af þeirri þjónustu sem við veitum. Það felast t.d. mikil tækifæri í að sjálfvirknivæða þjónustu til fólks sem velur og getur nýtt sér aukna tækni á borð við þá þjónustu sem ég nefndi áðan. En það er hins vegar líka staðreynd að gervigreindin skapar áskoranir, sérstaklega gagnvart sumum hópum, og mikilvægt að vinna þess vegna með báða póla. En ég kem aðeins betur að þessum áskorunum á eftir.

Varðandi tækifærin felast að mínu viti líka mörg tækifæri í nýtingu gagna inni í ráðuneytinu, t.d. við ákvarðanatöku og ef gögn flæddu nú betur, á milli t.d. stofnana og ráðuneyta, þá gætum við kannski svarað dæmum betur í rauntíma, ég held að það gæti verið mjög gott.

Helstu áskoranirnar lúta kannski að aðgengismálum. Við verðum að huga að því hversu aðgengileg tæknin er sem við erum að þróa gagnvart hópum sem geta ekki nýtt sér allar nýjar lausnir. Þar getum við nefnt t.d. fólk með sjónskerðingu eða fólk með þroskahömlun, sumt eldra fólk og einfaldlega fólk sem hefur ekki náð að tileinka sér tæknina. Um þetta höfum við dæmi. Það er sérstakur kafli í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem er til umfjöllunar hér á þinginu núna um aðgengi þar sem er m.a. aðgerð þar sem kveðið er á um að stefnur (Forseti hringir.) Stafræns Íslands um efnistök og aðgengi á vegum opinberra aðila verði nýttar til að útbúa leiðarvísa um hvernig megi gera þetta betur.