154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

mat á menntun innflytjenda.

729. mál
[18:31]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa góðu umræðu. Mig langar að byrja aðeins á því að leggja áherslu á að framhaldsfræðsluna. Hún á auðvitað að efla menntunarstig í landinu og efla íslenskt menntakerfi, á að aðstoða fólk sem hefur styttri skólagöngu til að fá tækifæri síðar í lífinu. En hún þarf líka að geta svarað kalli samtímans sem er ekki síst að veita fólki þjálfun þegar kemur að nýjungum á vinnumarkaði varðandi tækni, svo að dæmi sé tekið, það sem á ensku heitir, með leyfi forseta, „reskilling“ og „upskilling“. Það er mjög mikilvægt í þeirri endurskoðun sem núna á sér stað á framhaldsfræðslunni að við horfum til þessa þáttar. Við sjáum að innflytjendur eru í ákveðinni hættu á að verða jaðarsettir, að festast við lágtekjumörk. Við erum að sjá stéttskiptingu aukast og þetta er eitthvað sem við sem samfélag og ekki síst við hér á Alþingi þurfum að sameinast um að koma í veg fyrir að gerist.

Við erum að horfa m.a. á heildarendurskoðun laga um framhaldsfræðslu eða skilgreina betur markhópa framhaldsfræðslunnar. Þar þurfum við að taka betur utan um sérstaklega tvo hópa, annars vegar innflytjendur og hins vegar fatlað fólk, en það kemur líka inn á raunfærnimatið. En þar sem hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir er með fyrirspurn hér á eftir um það ætla ég að geyma mér það.

Ég enda á því að leggja áherslu á að við þurfum að ná miklu betur utan um íslenskukennslu til innflytjenda og samfélagsfræðslu. Íslenskan er lykillinn að samfélaginu og þar verðum við á næstu misserum og árum að gera betur til að tækifæri innflytjenda og ekki síst tækifæri barna innflytjenda séu þau sömu og annarra.