154. löggjafarþing — 87. fundur,  18. mars 2024.

líkhús og líkgeymslur.

640. mál
[19:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn um þetta mikilvæga málefni. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þó nokkuð mikil umfjöllun hefur verið um þetta málefni í fjölmiðlum í vetur og má segja að sú umræða hafi hafist þegar Kirkjugarðar Akureyrar settu líkhús sitt á sölu.

Hv. þingmaður beinir hér sex spurningum til mín og hyggst ég svara þeim í þeirri röð sem þær voru lagðar fram. Fyrst er spurt hvort fyrir liggja upplýsingar um staðsetningu og ábyrgð á rekstri líkhúsa og líkgeymslna um land allt og ef svo er ekki, hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir samantekt á slíkum upplýsingum. Því er fljótsvarað: Nei, nákvæmar upplýsingar þar að lútandi liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu. Unnið er að því að kortleggja þær þessa dagana þannig að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir sem unnt verður að byggja á fyrir stefnumótun í málaflokknum. Þó liggur fyrir að þetta eru ýmist kirkjugarðar, útfararþjónustur, heilbrigðisstofnanir, dvalarheimili eða sveitarfélög sem hafa komið sér upp líkhúsum eða líkgeymslum.

Spurt er hvort þörf sé á úrbótum á núverandi lagaumhverfi varðandi líkhús og líkgeymslur. Í ráðuneytinu hefur verið í skoðun hvað sé rétt að gera varðandi þá stöðu sem komin er upp og snýr að fjármögnun rekstrar líkhúsanna, sérstaklega Kirkjugarða Reykjavíkur og Kirkjugarða Akureyrar. Skv. 1. mgr. 20. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, er kirkjugörðum heimilt að reisa líkhús í eða við kirkjugarða og er í lögunum að finna nánari umfjöllun um þau. Ekki hefur þótt skýrt samkvæmt lögunum hver skuli bera ábyrgð á rekstri líkhúsa en í lögunum segir að kirkjugarðsstjórn sé heimilt að láta reisa kapellu og líkhús í eða við kirkjugarð á kostnað hans og koma þar upp húsnæðisaðstöðu fyrir starfsmenn kirkjugarðsins. Lögin eru frá árinu 1993 og þau þarfnast endurbóta.

Spurt er hvort ráðherra hyggist hafa frumkvæði að því að sett verði lög um starfsemi, rekstur og aðgengi að líkhúsum og líkgeymslum. Ljóst þykir að lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu þarfnist endurskoðunar. Svo að unnt sé að gera það með fullnægjandi hætti er mikilvægt að áður fari fram stefnumótunarvinna í málaflokknum með þátttöku þeirra ráðuneyta sem málefnið varðar, þ.e. heilbrigðisráðuneytisins og innviðaráðuneytisins. Rekstur kirkjugarða og líkhúsa varðar ekki eingöngu málefni dómsmálaráðuneytisins heldur jafnframt framangreindra ráðuneyta vegna snertingar við málefni sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitsins. Því er mikilvægt að ráðuneytin þrjú komi að endurskoðun laganna og stefnumótun málaflokksins. Hverju nákvæmlega verður breytt get ég ekki svarað núna en ljóst þykir að bregðast þurfi við helsta núverandi vanda líkhúsa landsins sem er að tryggja þeim fullnægjandi rekstrarheimildir.

Hv. þingmaður spyr hverja ráðherra telji vera eðlilega grunnþjónustu á þessu sviði sem tryggja þyrfti um land allt, svo sem varðandi aðgengi að þjónustu í tiltekinn fjölda daga eða ásættanlega dreifingu þjónustunnar um landið. Þetta eru allt spurningar sem ekki er unnt að svara með fullnægjandi hætti fyrr en stefnumótunarvinnan er komin lengra á veg. Ég myndi hins vegar ætla að nauðsynlegt sé að tryggja að gott aðgengi sé að líkhúsum og þjónustu henni tengdri í öllum landshlutum hér á landi.

Hv. þingmaður spyr hvernig ráðherra telji eðlilegast að tryggja fjármögnun stofnkostnaðar og reksturs líkhúsa og líkgeymslna til frambúðar. Hvernig málum verður háttað til frambúðar er eitthvað sem stefnumótunarvinna í málaflokknum þarf að leiða í ljós. Nauðsynlegt er að þessi þjónusta sé til staðar og að vandað sé til verka áður en mótuð er ný stefna, m.a. fyrir fjármögnun kostnaðarins, ábyrgð á starfrækslu líkhúsa o.fl. Ég ítreka þó mikilvægi þess að tryggja rekstrargrundvöll líkhúsa í landinu.

Að lokum spyr hv. þingmaður hvernig ráðherra telji eðlilegast að ábyrgð á rekstri líkhúsa og líkgeymslna sé háttað. Ég hef áður sagt að í mínum huga er lykilatriði — (Forseti hringir.) nú glymur bjallan og ég fæ kannski að klára það í seinna svari.