154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

Störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Stálin stinn og vel brýndur skerðingarhnífur eru verkfæri ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim verst settu sem reyna að tóra á lífeyrislaunum frá TR. Eldri borgarar hafa ekki fengið krónu eða hvað þá aura aukalega frá þessari skerðingarstjórn síðan hún komst til valda; ekkert aukalega í Covid, ekkert aukalega um jólin og mega þakka fyrir að hafa fengið helminginn af því sem aðrir launamenn hafa fengið. Til að kóróna þetta grófa fjárhagslega ofbeldi gagnvart öldruðu fólki og öryrkjum er flugbeitta skerðingarhnífnum beitt ótæpilega þannig að það stefnir í að heildarskerðingar í almannatryggingakerfinu verði um og yfir 100 milljarðar.

Í nýgerðum kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði var samið um 23.750 kr. hækkun á mánuði frá 1. febrúar. Mun þessi ríkisstjórn hækka lífeyrislaun almannatrygginga um sömu upphæð frá 1. febrúar? Nei, auðvitað ekki. Ef hún myndi gera það þá er ég viss um að allar dauðar lýs myndu detta úr höfði mínu og ég yrði orðlaus af undrun. Líklega niðurstaðan hjá ríkisstjórninni yrði sú að þeir verst settu á lífeyrislaunum frá TR myndu fá í mesta lagi helminginn af þessari hækkun og þá ekki fyrr en um næstu áramót. Þetta yrði gert með sömu brellum og beitt hefur verið á þennan hóp undanfarin ár og þannig aukið enn á kjaragliðnunina sem þegar er komin vel yfir 100.000 kr. á mánuði.

Breiðu bök þessarar ríkisstjórnar eru aldrað fólk og veikt fólk og þangað mun hún áfram leita að skattahækkunum með skerðingum og keðjuverkandi skerðingum eins og hún hefur gert hingað til, með þeim árangri að fleiri og fleiri í þessum hópi eru ekki bara í fátækt heldur eru í varanlegri sárafátækt. Þeir sem eingöngu eru með fjármagnstekjur borga bara 22% skatt og ekkert útsvar en eldra fólk og öryrkjar borga eftir frítekjumarkið 45% aukaskatt ofan á fjármagnstekjuskatt. Það er nær 78% skerðing í almannatryggingakerfinu en fjármagnseigendur halda eftir 78% af sínum tekjum og borga ekkert útsvar eins og áður hefur komið fram. Það fer ekki á milli mála hverjir eru vinir þessarar ríkisstjórnar og hverjir eru það alls ekki.