154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Ég vil bara taka undir þá sjálfsögðu kröfu að hæstv. fjármálaráðherra fái hér rými í þingsal til að ræða þennan farsa sem virðist vera kominn upp á milli stjórnarflokkanna hvað varðar möguleg kaup Landsbanka á tryggingafélagi. Það ætti að vera útgjaldalaust af hálfu forseta að veita það rými í ljósi þess að hér átti dagskrá vikunnar að vera undirlögð umræðu um fjármálaáætlun lögum samkvæmt, en ríkisstjórnin nær ekki saman um það grunnplagg þannig að hún frestast fram yfir páska. Við eigum því hér á dagskránni heila viku af plássi fyrir ráðherra að mæta og ræða við okkur.

Ég verð hins vegar í framhaldi af orðum forseta að lýsa furðu á því að fjármálaráðherra hafi bókað tvær utanlandsferðir í þessari viku. Það eru tvær vikur á ári þar sem þessi ráðherra þarf að vera hér í sal. Það er vikan er hún mælir fyrir fjárlögum og það er vikan þegar hún á að mæla fyrir fjármálaáætlun. Það að ráðherra (Forseti hringir.) hafi með fyrirvara ákveðið að hunsa þingið í þessari lykilviku opinberra fjármála — (Forseti hringir.) þetta er bara eins og ef Vestmannaeyingur myndi skrópa á þjóðhátíð. (Forseti hringir.) Hvaða þingmaður Vestmannaeyja myndi reikna með að fá endurkjör eftir slíkt fíaskó? Það að fjármálaráðherra skrópi (Forseti hringir.) í þessari viku er ákveðið hættumerki líka. (Gripið fram í: Heyr. heyr.)(Gripið fram í.)