154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

aðkoma stjórnvalda að kauptilboði Landsbankans í TM.

[14:20]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þær óskir sem hafa komið hér fram. Það kemur eiginlega á óvart að hæstv. ráðherra skuli ekki haft hafa haft forgöngu um að hafa mætt hér til að auka traust í samfélaginu. Það er ekkert langt síðan við gengum hér í gegnum fjármálahrun. Það eru enn þá sumar fjölskyldur að vinna úr því. Við höfum bara fengið nóg af fréttum af því að það sé verið að kaupa eða selja Borgun og það komi almenningi ekki við og ráðherrar þykjast ekkert vita þegar það hentar. Þetta gengur auðvitað ekki, hæstv. forseti. Við þurfum að fá betri umræðu um þetta. Ég vænti þess að Sjálfstæðisflokkurinn vilji vera boðberi einhvers trausts en ekki sífelldrar gjaldfellingar á fjármálakerfinu. Þetta er í rauninni ekki gott ástand og úr því þarf að bæta. Ég vona svo sannarlega að hæstv. fjármálaráðherra komi hér í þingsal sem allra fyrst og komi með yfirvegaðar skýringar á stöðu mála.