154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024--2027.

584. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég ætla ekki að fullyrða það, eins og hann gerir hér, að þetta sé ekki rétt, að hér séu beinlínis rangindi sett fram, þ.e. 55 milljónir. Eins og hv. þingmaður veit, og ég tek undir með honum, þarf að koma fram í fjármálaáætlun til næstu ára það sem hér er undir. Það kom alla vega fram í nefndinni að margt af þessu — þingmaður talar í raun um afleiddan kostnað í þessu, en það kom fram að það væru ekki beinlínis aukin útgjöld við hvern og einn einasta lið, alls ekki. Og a.m.k. þegar ég les þetta þá get ég nú alveg fallist á að svo er ekki endilega.

Síðan kemur fram þarna, og það má vera að hv. þingmaður sé ósammála þeirri nálgun, að kostnaðurinn verði metinn samhliða undirbúningi og vinnu að slíkum breytingum sem fylgja laga- og reglugerðarbreytingum. Það er það sem við höfum verið að gera en ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að á hverjum tíma geti verið erfitt að áætla það. En það er samt sem áður verið að gera ráð fyrir því með þessu að þetta sé sá kostnaður sem til fellur og vitað er hver er og reynt að meta hvað er fram undan. Svo veit ég að hv. þingmaður er mjög ósammála því sem kemur hér fram, að það rúmist innan ramma ráðuneytanna, en það er auðvitað þeirra mat og þau leggja það fyrir okkur að þetta eigi að geta gengið upp þar innan með öðrum verkefnum sem verið er að vinna í tengslum við þessa málaflokka. En ég veit að hv. þingmaður er ekki sammála því að það sé gert með þeim hætti.