154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

málstefna íslensks táknmáls 2024--2027 og aðgerðaáætlun.

37. mál
[16:59]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að fagna þessari niðurstöðu og nefndaráliti frá allsherjar- og menntamálanefnd, og þessari þingsályktunartillögu sem vissulega er tímabær og hér eru margir hlutir sem þurfa ekki að kosta neitt. Réttindi fólks þurfa ekki endilega að kosta eitthvað en þau eru mjög mikilvæg. Mig langar fyrst til að nefna það sem segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni:

„Hver sem hafi þörf fyrir táknmál skuli eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætting sjón- og heyrnarskerðingar hefur greinst. Sama rétt eigi nánustu aðstandendur.“

Þegar börn fæðast fer fram á fimmta degi heyrnarmæling og þá kemur í ljós hvort barnið er heyrnarlaust eða ekki. Það kemur fyrir bæði hjá heyrandi foreldrum og heyrnarlausum að barn fæðist inn í þetta umhverfi og það kemur oft fyrir að heyrnarlaust barn fæðist inn í heyrandi fjölskyldu og stórfjölskyldan er öll heyrandi, jafnvel samfélagið allt, en þeim hefur ekki verið vísað t.d. á mjög gott batterí sem ég finn hérna í breytingartillögu í nefndarálitinu, en þar segir „að stjórnvöld skuli beina táknmálsbörnum og foreldrum þeirra til Samskiptamiðstöðvar jafnskjótt og máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða samþætt sjón- og heyrnarskerðing hefur greinst“.

Þetta er mjög mikilvægur punktur vegna þess að áður en þessi stefna var sett, bara fyrir nokkrum árum, þegar barn greindist heyrnarskert, þá var það kannski ekki fyrr en barnið var jafnvel komið í leikskóla að farið var að vinna með þessa hluti og þá var kannski liðið jafnvel ár eða eitt og hálft ár frá fæðingu og þessi máltaka sem er svo nauðsynleg í nærumhverfi barnsins var ekki hafin. En foreldrar heyrnarskerts barns eða heyrnarlauss barns sem fæddist áttu rétt á að fara inn í Samskiptamiðstöð og ég veit að þar hefur verið unnin alveg gríðarlega góð vinna hvað varðar snemmtæka íhlutun. Þau hafa líka komið og jafnvel undirbúið, þó að það sé ár þangað til að barnið fer í leikskóla, leikskólann sem barnið kemur til með að fara í og kynnt starfsfólki hvað það eigi í vændum.

Þessi stefna er góð. Það er margt í henni eins og t.d. að festa í sessi og lögvernda starfsheiti táknmálstúlka sem er mjög mikilvægt og fleira sem hér má finna. Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og eina tungumálið sem á sér lagalega stoð fyrir utan íslenska tungu eins og sjá má í lögum. Öll skref í þá átt að við festum réttindi heyrnarskertra og heyrnarlausra í sessi eru mjög mikilvæg. Síðan er það okkar vinna hér inni og þeirra sem eru í hv. fjárlaganefnd að vinna með svona stefnur og finna til fjármagn svo við getum unnið með það áfram því að þetta er ekki bundið við þetta kjörtímabil eða þetta fjárlagaár. Þetta er til frambúðar. Þess vegna er mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga komi hérna fram og ég kem hér sérstaklega til að fagna því og ég veit að við gerum það öll. Við getum alveg tekið undir þetta og unnið að því saman að gera þetta að raunveruleika vegna þess að við eigum hér kannski aðgerðaáætlanir og lög sem eru kannski mismunandi fjármögnuð en við höfum þessi réttindi og þeir geta þá alla vega hampað því sem eiga það skilið.