154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við fylgjumst mjög náið með þessari umræðu og hún á sér stað bæði vestan hafs og hér í Evrópu en við höfum ekki enn þá séð hana leiða til virkra aðgerða. En umræðan er lifandi, það er alveg hárrétt og við munum fylgjast með henni. Ég geri ráð fyrir því að ef slíkar ákvarðanir verða teknar þá munum við skoða möguleika til þess að fara svipaðar leiðir enda sé þá um að ræða einhverjar frystar eignir sem væri hægt að ráðstafa í þessum tilgangi samkvæmt löglegum leiðum að íslenskum lögum. Þetta er eitthvað sem mér finnst geta komið til greina. Við þurfum að hafa í huga margþættar þarfir Úkraínumanna til lengri tíma. Hér er vísað sérstaklega til þess að halda innviðum eða eðlilegri samfélagsþjónustu og starfsemi gangandi og ég tek undir með hv. þingmanni að það er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt og er hluti af þeim stuðningi sem bæði við Íslendingar og aðrar þjóðir erum að leggja af mörkum. Eins er ljóst að það má gera ráð fyrir því að það muni þurfa gríðarlega mikla uppbyggingu til langs tíma. Við höfum t.d. verið að sjá hér heima fyrir fréttir af sprengjuleitarverkefninu, sem hefur verið gerð góð skil í íslenskum fjölmiðlum síðustu daga. Ég held að ég hafi jafnvel verið að lesa um það í dag frekar en í gær hversu umfangsmikið það verkefni er, hversu mörg þúsund ferkílómetrar eru undir. Það bíður einfaldlega jafnvel áratugaverkefni okkar þegar upp er staðið. Mér finnst ekki neitt nema eðlilegt að eignir þeirra sem eiga hér sök í máli geti komið til álita til að mæta öllum þeim kostnaði.