154. löggjafarþing — 88. fundur,  19. mars 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[19:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við beittum þeirri leið í upphafi eins og margar aðrar þjóðir og ég held að það megi segja með svipuðum hætti og á við um þá sem leggja á flótta frá Úkraínu að þá skiptir töluvert miklu máli að það séu samhentar aðgerðir landa sem við erum að taka þátt í. Það voru mjög margar þjóðir sem veittu tollfrelsi tímabundið í upphafi og síðan hefur kvarnast úr þeim hópi og við verðum einfaldlega að vera raunsæ þegar við metum langtímaáhrifin af því að taka inn til Íslands með fullu tollfrelsi allar landbúnaðarafurðir jafn stórs ríkis og Úkraína er og spyrja okkur hvort það séu aðrar leiðir sem við getum kannski betur fetað til þess að standa með landinu í þeim gríðarlega erfiðu verkefnum sem það stendur frammi fyrir. Ég er ekki með á prjónunum áform um að opna að nýju fyrir tollfrjálsan innflutning á öllum landbúnaðarafurðum í Úkraínu. Slíka aðgerð tel ég að væri ekki hægt að innleiða hér án þess að það færi fyrst fram mat á áhrifum þess á innlenda matvælaframleiðslu og þá er ekki hægt að nota til viðmiðunar þær tölur um magn innfluttra vara sem áttu við hér á fyrsta árinu eftir að innrásin hófst. En mér finnst þetta alveg gild hugmynd að öðru leyti. Ég lít þannig á að þessu tímabili sé lokið og nú erum við að ræða hér langtímastuðning og áherslumál til næstu ára, enda verðum við að gera ráð fyrir því þegar við erum að gera áætlanir að stríðinu muni ekki ljúka alveg á næstunni og eins og skjalið ber með sér er margar leiðir hægt að fara í þessum efnum.