154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Forseti. Í dag birtist hraðúttekt Ríkisendurskoðunar á ópíóíðavandanum. Úttektin varpar skýru ljósi á fullkominn skort á pólitískri forystu, stefnuleysi og þokukennda sýn á málaflokkinn. Eftir lestur hennar ætti öllum að vera ljóst hvernig við höfum brugðist sem stjórnmálamenn og samfélag því fólki sem glímir við erfiðan ópíóíðavanda. Enginn viðmælandi Ríkisendurskoðunar gat bent á hvar forysta í málaflokknum lægi. Það er engin stefna í gildi um áfengis- og vímuvarnir. Hún rann út árið 2020. Fjárþörf vegna vandans hefur ekki verið metin í heilbrigðisráðuneytinu. Það þýðir að framboð á meðferð byggir hvorki á mati á þörf né á opinberri stefnumótun. Yfirsýnin er engin. Gögnin eru úti um allt í kerfinu; hjá hinu opinbera og einnig hjá félagasamtökum sem gert hafa samninga við ríkið. Upplýsingarnar sem fyrir liggja geta þess vegna verið misvísandi. Ítrekað hefur verið kallað eftir heildstæðri endurskoðun á gildandi samningum SÁÁ við Sjúkratryggingar. Síðast var samið um meðferð við ópíóíðafíkn árið 2014, fyrir áratug. Ákveðnir hópar fá ekki þá þjónustu sem þau þurfa þegar þau þurfa á henni að halda og þar sem þau þurfa á henni að halda. Bráðaþjónusta er af skornum skammti. Kostnaðarmat flýtimóttöku er í höndum Sjúkratrygginga eins og er. Á síðasta ári greiddum við 55 millj. kr. úr ríkissjóði til SÁÁ til að sinna sjúklingum með ópíóíðafíkn. Í fyrra greindust 67 einstaklingar sem þangað voru lagðir inn með ópíóíðafíkn, en það er 60% aukning frá 2017. 194% aukning varð á innlögnum á Landspítalann á sama árabili. 100% aukning varð á árunum 2017–2023 í dauða fólks vegna ópíóíðaeitrana. Við höfum sem samfélag verk að vinna, hæstv. forseti. Ungt fólk deyr svo að segja vikulega ótímabærum dauðdaga vegna ópíóíðafíknar. Þetta má ekki vera svona.