154. löggjafarþing — 89. fundur,  20. mars 2024.

Störf þingsins.

[15:03]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Meira um sama mál. Heilbrigðisráðuneytið þarf að taka skýra forystu í málaflokknum. Þetta er ein meginniðurstaðan í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um ópíóíðavandann. Við skulum aðeins skoða hvað þetta þýðir. Um 2.700 manns biðja um pláss á Vogi á hverju einasta ári. Stór hópur til viðbótar leitar beint í önnur úrræði. Það létust um 30 einstaklingar vegna ópíóíðafíknar í fyrra, mest ungt fólk, en mögulega eru þeir fleiri. Það þurfa þúsundir einstaklinga að leita á náðir heilbrigðiskerfisins á hverju ári með banvænan sjúkdóm en samt ríkir algert forystuleysi í málaflokknum. Enginn viðmælenda Ríkisendurskoðunar gat bent á hvar forysta í málaflokknum lægi. Þetta segir okkur að þó að heilbrigðisyfirvöld gangist við því að þetta sé sjúkdómur þá er ekki verið að bregðast við með nægilegum krafti. Það hefur verið vitað í fjöldamörg ár að meðferðarpláss á Íslandi eru of fá. Það skortir endurhæfingu. Það skortir bráðaþjónustu. Það er skortur á fjármagni. Alvarlegastur er samt áratugaskortur á ráðamönnum sem raunverulega skilja vandann. Hringir það í alvöru engum bjöllum að nokkur þúsund manns með banvænan sjúkdóm biðja um aðstoð á hverju einasta ári? Þetta eru fleiri en greinast með krabbamein á hverju ári.

Það er fleira sem er bent á í þessari úttekt. Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki metið fjárþörf vegna ópíóíðavanda auk þess sem þörf fyrir heilbrigðis- og meðferðarþjónustu vegna vímuefnavanda hefur ekki verið kortlögð með heildstæðum hætti. Ópíóíðavandinn er ekkert nýr þótt hann vaxi hratt. Samt höfum við ekki kortlagt heilbrigðis- og meðferðarþjónustuna eða metið fjárþörfina. Málaflokkurinn danglar bara einhvern veginn áfram á sjálfstýringu og heilbrigðisyfirvöld reiða sig á grasrótarsamtök og félagasamtök. Skýrasta dæmið er að Sjúkratryggingar borga bara viðhaldsmeðferð vegna þessarar fíknar fyrir 90 einstaklinga á ári. Samt eru það 358 einstaklingar sem þiggja meðferðina. Þetta þýðir að 268 sjúklingar fá þessa sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu eingöngu vegna þess að fjöldi fólks er tilbúið til að standa í Kringlunni og Smáralind og selja álfinn. (Forseti hringir.) Ætlum við í alvöru að láta heilbrigðisþjónustu, stjórnarskrárbundna, standa og falla með því að sjálfsaflafé sé nægjanlegt í sjóðum þeirra samtaka sem um véla?